Skil ekki þessa skrítnu umræðu

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/@vikingurfc

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, greindi frá því á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag að fjórir leikmenn liðsins séu meiddir og geti ekki tekið þátt í leik Víkings gegn Cercle Brugge í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu á morgun.

„Staðan á hópnum er þannig að Valdimar [Þór Ingimundarson] verður ekki með á morgun og á smá möguleika á að ná leiknum á sunnudaginn.

Oliver Ekroth er byrjaður að æfa rólega þannig að það er smá möguleiki á því að hann verði með á sunnudaginn, ekki á morgun. Pablo [Punyed] og Matti [Matthías Vilhjálmsson] eru náttúrlega ekki með en aðrir eru bara fínir,“ sagði Arnar, en leikur morgundagsins fer fram á Kópavogsvelli.

Höfum náð í stór úrslit

Víkingur á fyrir höndum hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn gegn Breiðabliki næstkomandi sunnudagskvöld en Víkingar eru þó með fulla einbeitingu á Evrópuleik morgundagsins.

„Það er fullur fókus á þetta risastóra verkefni á morgun. Við erum að fara að spila á móti alvöruliði. Þeir unnu fyrsta leikinn 6:2 á móti sterku liði í svissnesku deildinni. Svo eru þessir Evrópuleikir búnir að vera virkilega erfiðir.

Við erum búnir að spila rúmlega 20 leiki í Evrópukeppni frá 2020 og erum búnir að vera frábærir í flestum þeirra. Við höfum náð í mjög stór úrslit. Stundum kemur skrítin umræða hérna á Íslandi um að okkur hafi ekki gengið vel í Evrópu,“ sagði hann.

Frábær árangur á heimavelli

Svissneska liðið sem Arnar nefndi er St. Gallen. Í fyrstu umferð tapaði Víkingur 4:0 fyrir Omonia Nikosía á Kýpur. Hann hélt áfram:

„Okkur er búið að ganga mjög vel. Við erum búnir að vinna Lech Poznan, gera jafntefli við og tapa naumlega gegn Malmö, vinna Riga og TNS sem er núna í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Þannig að ég skil aldrei þessa umræðu um að Víkingar séu ekki að standa sig í Evrópu.

Heimavallarárangur okkar er frábær. Við erum búnir að spila 10-11 leiki og tapa einum. Ég held að Belgarnir viti þetta. Ég held að þeir viti að þeir séu að fara í mjög erfiðan leik.

Í leiknum okkar úti í Kýpur var 1:0 á 80. mínútu og svo gerðum við að mínu mati mjög klaufaleg mistök sem hleypti leiknum í 4:0, sem var óþarfi. Ég held að við þurfum ekki að óttast neitt sem byggist á því að við erum sterkt og flott Evrópulið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert