Knattspyrnudeild Vals hefur eytt færslu um að félagið hafi selt landsliðsmarkvörðinn Fanneyju Ingu Birkisdóttur á metupphæð til sænska félagsins Häcken.
Valur tilkynnti á samfélagsmiðlum sínum á föstudag að félagið hafi komist að samkomulagi um kaup Häcken á hinni 19 ára Fanneyju á upphæð sem hefur áður ekki sést í íslenskum kvennafótbolta.
Fanney hefur varið mark Vals undanfarin tvö tímabil þar sem hún hefur orðið Íslands- og bikarmeistari. Þá hefur hún verið aðalmarkvörður landsliðsins undanfarið ár og spilað sjö A-landsleiki.
Í tilkynningunni sagði Björn Steinar Jónsson, varaformaður Vals, að kaupverðið væri trúnaðarmál en að ljóst væri að félagið sé að fá upphæð sem ekki hafi sést í íslenska kvennaboltanum til þessa.
„Og Fanney Inga stendur alveg undir því enda teljum við að hún eigi eftir að ná langt í framtíðinni. Við óskum henni alls hins besta og getum ekki beðið eftir því að fylgjast með henni á stóra sviðinu,“ sagði Björn Steinar.
Uppfært: Félögin hafa komist að samkomulagi en Häcken og Fanney eiga eftir að ganga frá kaupum og kjörum sín á milli.