Bandaríkin unnu Ísland, 3:1, í fyrri vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu kvenna í Austin, Texas í nótt.
Íslenska liðið stóð vel í því bandaríska en gæði varamanna Bandaríkjanna reyndust of mikil á lokamínútum leiksins.
Seinni vináttuleikur þjóðanna fer fram í Nashville, Tennessee næstkomandi sunnudagskvöld.
Íslenska liðið fór vel af stað fyrstu mínútur leiksins en eftir það tóku Bandaríkin yfir.
Á 39. mínútu leiksins kom fyrsta mark Bandaríkjanna en það skoraði Alyssa Thompson.
Þá fékk hún boltann frá Rose Lavelle, lék á Natöshu Anasi og smellti honum í fjærhornið, sláin inn, 1:0.
Íslenska liðið kom af krafti inn í seinni hálfleikinn og á 56. mínútu jafnaði Selma Sól Magnúsdóttir metin með glæsilegu marki.
Þá fékk hún boltann frá Guðnýju Árnadóttur, lék á Lavelle og smellti boltanum í fjær utan teigs, allt jafnt 1:1.
Ísland varðist Bandaríkjunum vel og gekk ólympíumeisturunum illa að skapa sér færi. Hópur Bandaríkjanna er hins vegar það sterkur að varamenn liðsins gjörbreyttu leiknum.
Á 85. mínútu kom Casey Krueger boltanum á Jaedyn Shaw sem fór illa með Natöshu og setti boltann síðan á milli fóta Telmu og í netið, 2:1. Báðar tvær komu inn á sem varamenn.
Sophia Smith, ein af stjörnum bandaríska liðsins en varamaður í nótt, skoraði síðan þriðja mark Bandaríkjanna.
Þá datt boltinn fyrir hana rétt utan teigs og hún smellti honum í netið á lofti, glæsilegt mark og sigur Bandaríkjanna staðreynd.