Langþráð og sögulegt í viðureignum við Belga

Aron Elís Þrándarson í baráttunni á Kópavogsvelli í dag.
Aron Elís Þrándarson í baráttunni á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/Eyþór

Sigur Víkinga gegn Cercle Brugge í Sambandsdeild karla í fótbolta er sögulegur á margan hátt og hann er sá fyrsti frá upphafi hjá íslensku liði gegn belgísku í Evrópukeppni karla.

Íslensk lið og belgísk höfðu fyrir leikinn í dag mæst 28 sinnum í Evrópukeppni, allt frá því Valsmenn léku gegn Standard Liege árið 1966 og gerðu óvænt jafntefli, 1:1, í öðrum leiknum en töpuðu 8:1 í hinum. 

ÍA og Fylkir höfðu einnig náð jafnteflum í heimaleikjum gegn belgískum liðum, ÍA gegn Beveren, 2:2, árið 1984 og Fylkir gegn Moeskroen, 1:1, árið 2002.

Hina 25 leikina höfðu belgísku liðin unnið, nokkra þeirra stórt, og fjóra þeirra á síðasta ári þegar Club Brugge vann KA tvisvar, 5:1 í báðum leikjum, og Gent vann Breiðablik 5:0 og 3:2.

Úrslitin í öllum 29 leikjum íslenskra og belgískra karlaliða í Evrópukeppni eru sem hér segir:

1966 Valur - Standard Liege 1:1, 1:8
1969 Valur - Anderlecht 0:6, 0:2
1984 ÍA - Beveren 2:2, 0:5
1989 ÍA - Liege 0:2 1:4
1999 ÍA - Lokeren 1:3, 1:3
1999 Leiftur - Anderlecht 0:3, 1:6
2000 ÍA - Gent 0:3, 2:3
2001 ÍA - Club Brugge 1:6, 0:4
2002 Fylkir - Moeskroen 1:1, 1:3
2004 Fylkir - Gent 0:1, 1:2
2013 KR - Standard Liege 1:3, 1:3
2013 FH - Genk 0:2, 2:5
2023 KA - Club Brugge 1:5, 1:5
2023 Breiðablik - Gent 2:3, 0:5
2024 Víkingur - Cercle Brugge 3:1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka