Mikilvægt að geta gleymt mistökunum

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í kvöld. Eyþór Árnason

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta, var að vonum kátur þegar hann ræddi við mbl.is eftir sigurinn á Cercle Brugge í Sambandsdeildinni í kvöld, 3:1.

Belgíska liðið komst yfir snemma leiks en Víkingur svaraði með þremur mörkum og vann sanngjarnan sigur.

„Það var skjálfti í okkur fyrsta kortérið. Það var eins og við værum að komast að því hvort við ættum heima á þessu stigi eða ekki. Þegar þeir skora er svo eins og einhverjum hlekkjum hafi verið hent af okkur.

Við jöfnuðum í næstu sókn og það gaf okkur ansi mikið. Leikurinn var vel útfærður eftir það. Þeir voru meira með boltann en við beittum skyndisóknum og fengum mikið af góðum færum. Við misstum ekki trúna þótt það hafi tekið tíma að skora annað markið,“ sagði Arnar við mbl.is um leikinn.

Halldór Smári Sigurðsson byrjaði leikinn en þurfti að fara af …
Halldór Smári Sigurðsson byrjaði leikinn en þurfti að fara af velli vegna meiðsla. mbl.is/Eyþór

Danijel Dejan Djuric kom Víkingi í 2:1, en hann hafði áður brennt af úr víti og átt þátt í marki gestanna.

„Það var mjög vel gert hjá Danijel að ná markinu eftir að hann gerði mistök í fyrsta markinu og klúðraði síðan víti. Það er mikilvægt að geta gleymt mistökunum á vellinum. Betri leikmenn hafa þann eiginleika. Hann var því mættur fullur einbeitingar að skora annað markið.“

Sjálfsagt verið fúll

Halldór Smári Sigurðsson var í byrjunarliði Víkings og lék þar til hann þurfti að fara af velli vegna axlarmeiðsla. Hann var að leika sinn fyrsta leik í tæpa þrjá mánuði.

„Ég sagði við hann fyrir leikinn á móti ÍA að hann væri nálægt því að komast í liðið. Hann er búinn að vera frábær á æfingum. Við þurfum aðeins að hvíla Jón Guðna og Oliver Ekroth var ekki með og því var gott að fá Halldór inn. Hann er enn þá frábær fótboltamaður og það var frábært að geta gefið honum þennan leik.“

„Hann hefur sjálfsagt verið fúll en hann hefur ekki verið að tala við mig um það. Hann vill spila og það er lítið eftir af ferlinum. Hann er mikill liðsmaður og skilur af hverju hann var ekki að spila. Hann var svo klár þegar kallið kom.“

Ari Sigurpálsson skoraði fallegt fyrsta mark Víkings, en eftir góðan sprett skilaði hann boltanum glæsilega í fjærhornið.

„Hann er orðinn sérfræðingur að setja boltann í fjærhornið eftir spretti, en ég hefði tekið í durginn á honum ef hann hefði ekki skorað. Svo fékk hann tvö góð færi í viðbót. Hann var einn af mörgum sem var góður í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka