Sögulegur sigur Víkings

Víkingur úr Reykjavík skráði sig í sögubækurnar í dag með því að vinna Cercle Brugge frá Belgíu, 3:1, í 2. umferð í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta. Er sigurinn sá fyrsti hjá íslensku liði á þessu stigi keppninnar.

Leikið var á Kópavogsvelli, þar sem Víkingsvöllur er ekki löglegur í deildarkeppninni. Víkingur er með þrjú stig eftir tvo leiki. Belgíska liðið er einnig með þrjú stig. Næsti leikur Víkings í keppninni er á heimavelli gegn Borac Banja Luka frá Bosníu, 7. nóvember.

Gestirnir byrjuðu betur og Kéven Denkey skallaði rétt framhjá úr dauðafæri strax á 2. mínútu. Denkey komst svo aftur fyrir vörn Víkinga á 15. mínútu og átti fast skot að marki en Ingvar Jónsson í marki Víkinga varði vel.

Aron Elís Þrándarson í baráttunni á Kópavogsvelli í dag.
Aron Elís Þrándarson í baráttunni á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/Eyþór

Aðeins mínútu síðar kom Ingvar hins vegar engum vörnum við þegar Kazeem Olaigbe skoraði fyrsta markið á 16. mínútu með hnitmiðuðu skoti rétt utan teigs.

Ari Sigurpálsson hafði lítinn áhuga á að vera undir, því hann jafnaði strax í næstu sókn. Hann fékk þá boltann á vinstri kantinum, lék á varnarmenn og skilaði boltanum stórglæsilega upp í hornið fjær.

Eftir því sem leið á hálfleikinn náðu Víkingar betri tökum á leiknum. Ari var nálægt því að koma Víkingi yfir á 39. mínútu en varnarmaður gestanna bjargaði glæsilega á línu.

Víkingur fékk síðan enn betra færi á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Gísli Gottskálk Þórðarson náði í víti. Danijel Dejan Djuric fór á punktinn en skaut í slána. Var staðan í leikhléi því 1:1.

Danijel Dejan fékk annað úrvalsfæri á 52. mínútu er hann fékk boltann í markteignum eftir góða sókn upp vinstri kantinn og sending frá Ara en Maxime Delanghe í marki gestanna varði vel.

Markaskorarinn Olaigbe fékk gott færi til að skora annað mark belgíska liðsins á 69. mínútu er hann slapp inn fyrir vörnina, en Ingvar varði vel. Mínútu síðar setti Felipe Augusto boltann rétt framhjá af stuttu færi.

Það voru hins vegar Víkingar sem skoruðu næsta mark og þar var að verki Danijel Dejan Djuric á 77. mínútu. Hann kláraði þá af öryggi af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Erlings Agnarssonar.

Víkingar voru ekki hættir því Gunnar Vatnhamar gerði þriðja mark liðsins á 83. mínútu þegar hann skallaði í netið af stuttu færi eftir glæsilega fyrirgjöf Gísla frá hægri.

Gestirnir voru ekki líklegir til að minnka muninn og koma spennu í leikinn í lokin og Víkingar sigldu sögulegum sigri í höfn.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 3:1 Cercle Brugge opna loka
90. mín. Cercle Brugge fær hornspyrnu Mögulega síðasti séns fyrir gestina til að minnka muninn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka