Þá byrjaði þetta að smella

Ari SIgurpálsson, sem skoraði glæsilegt mark, með boltann í kvöld.
Ari SIgurpálsson, sem skoraði glæsilegt mark, með boltann í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Það var smá skjálfti í byrjun en svo rifum við okkur í gegn þegar við lentum undir,“ sagði Ari Sigurpálsson, einn markaskorara Víkings í sigrinum sögulega á Cercle Brugge í Sambandsdeildinni í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir leik.

Gestirnir komust yfir á 16. mínútu en Ari jafnaði strax í næstu sókn. Víkingar fengu síðan fjölmörg færi til að skora fleiri mörk og nýttu tvö þeirra í seinni hálfleik.

„Við höfðum engu að tapa eftir þeirra mark og við ákváðum að vera árásargjarnari. Þá byrjaði þetta að smella. Mörkin hefðu getað orðið fleiri. Við klúðruðum víti og varið á línu hjá mér og svo fékk Danijel annað gott færi,“ sagði hann.

Mark Ara var glæsilegt, en hann lagði boltann hnitmiðað í bláhornið fjær eftir magnaðan sprett. Hann var með samherja í teignum en ákvað að fara sjálfur.

„Ég ætlaði að gefa fyrir en svo sé ég bakvörðinn koma á fullu. Hann hafði komist fyrir aðra fyrirgjöf hjá mér. Þegar ég kemst í þessa stöðu veit ég hvað ég þarf að gera til að koma boltanum á markið.“

Víkingar fá lítinn tíma til að fagna því liðið leikur úrslitaleik við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudag.

„Það er leikur aftur á sunnudaginn og það er einn stærsti leikurinn í sögu Víkings. Við þurfum að jafna okkur vel og við sjáum hvað gerist. Við verðum að vera á jörðinni fyrir leikinn.

Blikarnir eru öðruvísi lið en Cercle Brugge og það er ekki endilega léttara að spila á móti Breiðabliki,“ sagði Ari.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka