Vítavert hjá Víkingum

Danijel Dejan Djuric skýtur í samskeytin á marki Cercle Brugge …
Danijel Dejan Djuric skýtur í samskeytin á marki Cercle Brugge af vítapunktinum á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

Víkingar hafa farið afar illa með vítaspyrnur í Evrópumótum karla í fótbolta í sumar og haust en það hefur samt ekki komið í veg fyrir að þeir leiki nú í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar og séu komnir þar með sín fyrstu stig.

Fjórar vítaspyrnur hafa farið í súginn hjá Víkingum og sú fyrsta var afdrifaríkust.

Þá gat Nikolaj Hansen jafnað gegn Shamrock Rovers, 2:2, í 1. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar, á síðustu sekúndu í uppbótartíma, og tryggt Víkingum framlengingu. En hann skaut í stöng og Shamrock var komið áfram en Víkingar færðust yfir í undankeppni Sambandsdeildar.

Þegar Víkingar mættu UE Santa Coloma frá Andorra í fyrri úrslitaleik umspilsins um sæti í deildarkeppninni fengu þeir vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks, þegar þeir voru yfir, 1:0. Aron Elís Þrándarson tók spyrnuna en Alex Ruiz í marki UE varði frá honum.

Nikolaj Hansen skýtur í stöngina á síðustu sekúndunni gegn Shamrock …
Nikolaj Hansen skýtur í stöngina á síðustu sekúndunni gegn Shamrock Rovers í Dublin. Ljósmynd/Inpho Photography

Víkingar fengu tvær vítaspyrnur í viðbót í síðari hálfleik. Fyrst skoraði Valdimar Þór Ingimundarson, og síðan fór hann aftur á vítapunktinn en skaut yfir mark Andorramannanna. Þetta kom ekki að sök, Víkingar unnu stórsigur, 5:0.

Og á Kópavogsvellinum í dag fengu Víkingar vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks gegn Cercle Brugge þegar staðan var 1:1. Danijel Dejan Djuric tók spyrnuna, sendi markvörðinn í vitlaust horn en skaut í markvinkilinn og út. Aftur var ekki um afdrifaríkt atvik að ræða því Víkingar unnu 3:1 og Danijel bætti fyrir vítið með því að skora annað mark þeirra í leiknum.

Nú er spurning hver fær það hlutverk að taka næstu vítaspyrnu Víkings í Sambandsdeildinni!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka