Getur ekki farið fram á mikið meira

Þorsteinn Halldórsson var sáttur við frammistöðuna í nótt.
Þorsteinn Halldórsson var sáttur við frammistöðuna í nótt. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Það var margt mjög jákvætt í þessum leik hjá okkur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, eftir góða frammistöðu en ósigur, 3:1, gegn ólympíumeisturum Bandaríkjanna í Austin í Texas í nótt.

Staðan var 1:1 fram á 85. mínútu en bandaríska liðið skoraði tvívegis undir lokin og tryggði sér sigurinn.

„Það lá á okkur í lokin og það var högg að fá þessi mörk á okkur. En við lögðum heilt yfir vel í leikinn, þorðum að vera með boltann og opnuðum þær, í heildina fengum við opnari færi en þær og ég er sáttur við mjög margt úr þessum leik,“ sagði Þorsteinn í viðtali við samskiptamiðla KSÍ eftir leikinn.

„Þetta þriðja mark var glæsilegt, hún negldi honum bara óverjandi í hornið en aðdragandinn að fyrra markinu var klaufalegur. En maður getur ekki farið fram á mikið meira en þetta frá leikmönnunum, þær gerðu hlutina vel, voru hugrakkar inni á vellinum og þorðu að vera með boltann. Það var margt mjög jákvætt í þessu, það gengu margir hlutir upp hjá okkur og margir leikmenn spiluðu vel,“ sagði Þorsteinn.

Liðin mætast aftur í Nashville í Tennessee á sunnudagskvöldið og Þorsteinn gerir ráð fyrir að breyta liðinu nokkuð.

„Já, það verða einhverjar breytingar, en það kemur bara í ljós. Við eigum eftir að skoða stöðuna á leikmönnum, hvernig þær koma út úr leiknum og hvernig þær verða á morgun og laugardaginn,“ sagði Þorsteinn Halldórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka