„Það er langt síðan ég skoraði með vinstri, hvað þá fyrir utan teig,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir sem skoraði glæsilegt mark í Austin í Texas í nótt þegar ólympíumeistarar Bandaríkjanna sigruðu Ísland 3:1 í vináttulandsleik í fótbolta í Austin í Texas.
Selma jafnaði, 1:1, snemma í síðari hálfleik með skoti utan vítateigs, eftir gott spil við Guðnýju Árnadóttur, en bandaríska liðið skoraði tvisvar á lokamínútum leiksins og tryggði sér sigur.
„Það var margt jákvætt í þessu, við stóðum vel í þeim, en vorum orðnar helvíti þreyttar síðustu tíu mínúturnar. Það er hægt að taka margt gott út úr þessum leik. Auðvitað vill maður vinna en þetta er klárlega eitthvað til að byggja ofan á,“ sagði Selma í viðtali á samskiptamiðlum KSÍ.
Spurð um markið sagði Selma: „Það er langt síðan ég skoraði með vinstri, hvað þá fyrir utan teig, en það var mjög gott að skora og ná þar með að standa aðeins í þeim í leiknum.“
Liðin mætast aftur í Nashville í Tennessee á sunnudagskvöldið.
„Það er bara spennandi, gaman að spila á móti þeim og bera okkur saman við þær. Ég er bara spennt að mæta þeim aftur á sunnudaginn og gera enn þá betur,“ sagði Selma Sól sem skoraði sitt fimmta mark fyrir Ísland í 42 landsleikjum.