Benoný Breki Andrésson varð fyrsti leikmaðurinn til að skora fimm mörk í leik í úrvalsdeild karla í fótbolta í fimmtán ár þegar hann afrekaði það gegn HK í lokaumferð Bestu deildarinnar á Þróttarvellinum í dag.
Aðeins einn annar hefur leikið þennan leik í deildinni á 21. öldinni og það var líka KR-ingur. Björgólfur Takefusa skoraði öll fimm mörk KR í sigri á Val, 5:2, á Hlíðarenda í lokaumferð deildarinnar árið 2009.
Og sá sem varð síðastur til að skora fimm mörk í deildinni á 20. öldinni var líka KR-ingur. Það var Andri Sigþórsson sem skoraði fimm mörk í sigri á Skallagrími, 6:2, í efstu deild árið 1997.
Fram að því hafði það níu sinnum gerst á Íslandsmótinu að leikmaður hafði skorað fimm eða fleiri mörk í leik.
Sumarliði Árnason skoraði fimm mörk fyrir ÍBV í sigri gegn Þór, 6:1, árið 1994.
Halldór Áskelsson skoraði fimm mörk fyrir Þór í sigri gegn FH, 6:1, árið 1985.
Teitur Þórðarson gerði enn betur og skoraði sex mörk fyrir ÍA í sigri gegn Breiðabliki, 10:1, árið 1973.
Þórólfur Beck skoraði fimm mörk fyrir KR í sigri á ÍBA frá Akureyri, 6:3, árið 1961.
Gunnar Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Val í sigri á ÍBA, 6:2, árið 1957.
Óskar Sigurbergsson skoraði fimm mörk fyrir Fram í sigri á Þrótti, 12:2, árið 1954.
Síðan þarf að fara allt aftur til áranna 1918 og 1919. Þá skoraði Friðþjófur Thorsteinsson úr Fram tvívegis sex mörk í leik, í 6:1 sigri á KR árið 1918 og í 9:0 sigri á Val árið 1919. Hann gerði einnig fimm mörk í 6:3 sigri á Víkingi árið 1918.