„Ég vildi hætta á eigin forsendum“

Daníel Laxdal hefur lagt skóna á hilluna.
Daníel Laxdal hefur lagt skóna á hilluna. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Tilfinningin að þurfa ekki að æfa meira er bara mjög góð en ég verð bara partur af silfurskeiðinni og verð stuðningsmaður núna,“ sagði knattspyrnumaðurinn Daníel Laxdal sem spilaði sinn síðasta leik fyrir  Stjörnuna eftir 20 ára feril hjá félaginu.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn þó að seinni hálfleikur hafi ekkert verið neitt sérstakur. Að klára þetta á sigri er mjög gott,“ sagði Daníel eftir 3:2-sigur á FH í 27. og síðustu umferð Bestu deildarinnar.

Daníel er 38 ára og segir líkamann ekki vera ástæðan fyrir því að skórnir séu að fara á hilluna.

„Nei þetta er meira andlega. Ég er búinn að vera lengi í þessu og er smá komin með nóg af æfingum og svona. Mér finnst þetta fínn tími, ég vildi líka hætta á eigin forsendum ekki vegna meiðsla eða eitthvað, ég er sáttur með þessa ákvörðun.“

Var erfitt að gíra sig upp í síðasta leikinn eftir öll þessi ár?

„Nei eiginlega ekki. Þetta er kannski ekki búið að detta almennilega inn, kannski tárast maður eftir nokkra daga og lítur til baka og horfir aftur á þetta myndband sem þeir sýndu,“ sagði Daníel 

Falleg stund, það var bara svo kalt

Það var sýnt 15 mínútna langt myndband eftir leikinn og svo tók við myndataka í rigningunni

„Falleg stund, það var bara svo kalt úti ég er ennþá að reyna að fá hita í kroppinn en mér þykir vænt um þetta allt.“

Hilmar Árni Hall­dórs­son spilaði einnig sinn síðasta leik en þeir hafa verið liðsfélagar frá því að Hilmar kom árið 2016. Hann sagði að það verði „öðru­vísi og allt annað að hafa Daní­el Lax­dal ekki inni á vell­in­um.“

„Ég verð bara að ræða við Hilmar og segja að þetta verði allt í lagi. Ég held að það sem er í gangi hér er mjög flott og er mjög bjartsýnn á framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert