Frábært að skora fimm mörk

Benoný Breki Andrésson fagnar einu fimm marka sinna í leiknum …
Benoný Breki Andrésson fagnar einu fimm marka sinna í leiknum í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Benoný Breki Andrésson var svo sannarlega maður leiksins og braut líka blað í sögu íslenskrar knattspyrnu í dag þegar hann skoraði 5 mörk í 7:0 sigri KR gegn HK á Þróttarvellinunm í lokaumferð Bestu deildarinnar.

Eins og fjallað hefur verið um í dag þá sló Benoný met þegar hann endaði með 21 mark í deildinni og var einnig valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar, valinn af leikmönnum, en það val var kunngjört fyrir leik liðsins í dag.

Benoný var eðlilega mjög ánægður í leikslok, bæði með sigurinn og markametið: „Mér líður bara mjög vel. Planið var að komast sem hæst á listann og að skora 5 mörk var frábært."

Benoný fékk mikið af færum og var greinilegt upplegg KR-inga að sækja stíft á HK. „Ég fékk tvö góð færi í byrjun sem ég náði ekki að nýta og mér fannst samt eins og hlutirnir ættu eftir að detta inn í dag og svo fékk ég víti, skoraði og gat svo ekki stoppað".

Þrátt fyrir að meira væri undir hjá HK, að reyna að komast hjá falli, þá fundu KR-ingar mikla hvatningu til að sigra HK í dag, þrátt fyrir að þeir væru ekki að keppa um neitt þannig séð. KR hefur ekki sigrað HK á heimavelli síðan árið 2019, töpuðu báðum leikjum gegn Kópavogsliðinu í deildinni í sumar og svo auðvitað vildi liðið hjálpa Benoný að ná markametinu. 

„Seinustu leikir okkar gegn HK hafa verið slappir og við vissum núna almennilega hvað við ætluðum að gera. Við erum búnir að vera rosalega góðir í síðustu leikjum og við ætluðum að klára mótið með stæl. Einnig vildum við klára þetta almennilega fyrir Emma (Theodór Elmar Bjarnason) sem er að leggja skóna á hilluna" sagði Benoný Breki að lokum í samtali við

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert