„Heimir var bara að drífa sig á lokahófið“

Ólafur Guðmundsson með boltann í leiknum í dag.
Ólafur Guðmundsson með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Hakon Palsson

„Þetta var allt í lagi svo sem. Við spiluðum fínt inn á milli en fáum á okkur ódýr mörk sem er svekkjandi en smá táknrænt fyrir sumarið okkar í ár,“ sagði Ólafur Guðmundsson, leikmaður FH, eftir 3:2-tap gegn Stjörnunni í  27. og síðustu um­ferð Bestu deild­ar­inn­ar í knattspyrnu.

FH endaði í 6. sæti með 34 stig.

„Við erum búnir að spila vel en fengið á okkur auðveld mörk og gerum ekki nógu vel á loka þriðjungnum.

Við getum tekið helling úr þessu tímabili, við spiluðum mjög vel á köflum og vorum að spila vel í leikjum þar sem við fengum kannski ekki úrslit og það er eitthvað sem við þurfum að bæta á næsta tímabili, að nýta góða frammistöður og sækja stig.“,“ sagði Ólafur í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Tímabilið byrjaði vel hjá FH en svo fór að halla undan fæti og síðasti sigur liðsins kom í ágúst.

„Ef ég væri með skýringu á því hvað gerðist þá væri ég ríkur maður. Við misstum leikmenn og einhver meiðsli sem hafði kannski meiri áhrif á okkur en við héldum að það myndi hafa.“

Til dæmis missti FH Ástbjörn Þórðarson og Gyrði Hrafn Guðbrandsson til KR í sumarglugganum.

„Við fengum Kristján Flóka sem var helvíti gott en bæði Ástbjörn og Gyrðir voru stórir karakterar í hópnum og við söknum þeirra nokkuð mikið.“

Heimir Guðjónsson var fljótur að koma sér burt í leikslok og var farinn þegar blaðamenn bönkuðu á FH klefann.

„Heimir var bara að drífa sig á lokahófið. Það er ekkert mikið hægt að segja núna eftir þennan leik. Það er ekki leikur fyrr en eftir marga mánuði og ég held að hann sé ekkert að stressa sig á að vera í einhverjum viðtölum.“

Eftir leikinn voru þrír leikmenn Stjörnunnar kvaddir en Ólafur segir að enginn sé búin að tilkynna brottför úr Fimleikafélaginu.

„Nei við vitum ekki um neinn, það kemur bara í ljós á næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert