Rúnar ósáttur og vill breyta fyrirkomulaginu

Rúnar Kristinsson vill breyta fyrirkomulaginu.
Rúnar Kristinsson vill breyta fyrirkomulaginu. Eggert Jóhannesson

Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs Fram í fótbolta, ræddi við mbl.is eftir að liðið tapaði fyrir KA, 4:1, í lokaumferð Bestu deildarinnar á heimavelli Framara í Úlfarsárdal í dag.

Fram hafði ekki að neinu að keppa í fjórum síðustu umferðunum og tapaði öllum leikjum sínum. Rúnar er ósáttur við að sitt lið hafi gefist upp, en einnig ósáttur við fyrirkomulagið á Íslandsmótinu.

„Ég vil hafa tíu liða deild, þrjár umferðir og 27 leiki. Ég vil að við keyrum þetta hraðar. Það er glatað að vera að bíða í tvær vikur í landsleikjahléi þegar það eru tveir leikir eftir. Ég skil að það er erfitt að koma þessu fyrir, en það þarf að setjast niður og finna leiðir.

Þetta er skemmtilegt fyrir lið sem eru í toppbaráttu og þegar þetta er spennandi eins og þetta er núna, en það er í fyrsta skipti sem það er síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp.

Í öll hin skiptin eru Íslandsmeistarar klárir eftir 22 umferðir. KR vann deildina með 14 stiga mun árið 2019 og þá hefði ekki þurft að lengja tímabilið. Í fyrsta skipti núna er samkeppni á botninum um fall,“ útskýrði Rúnar og hélt áfram:

„Það skekkir mikið myndina þegar lið eins og við gefumst upp. Það getur eyðilagt fyrir einhverjum. Við vinnum Fylki í 1. umferð en hættum síðan. Við vorum samt ekki að reyna það samt.

Svo fer Fylkir til Ísafjarðar í lokaumferðinni og ná ekki einu sinni að fylla hópinn sinn. Eru þeir að spara kostnað? Væntanlega eru líka leikmenn í banni, en fyrir HK er það ekki skemmtilegt að þurfa að gera það sama og Vestri og svo mætir Fylkir með laskað lið. Ég er ekki að gagnrýna Fylki, heldur fyrirkomulagið. Þetta skekkir alla mynd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert