Stærsti leikurinn í sögu Íslandsmótsins

Höskuldur Gunnlaugsson er klár í slaginn fyrir leikinn við Víking.
Höskuldur Gunnlaugsson er klár í slaginn fyrir leikinn við Víking. Ólafur Árdal

„Ég vil meina að þetta sé stærsti leikurinn í sögu Íslandsmótsins og þá þýðir það sjálfkrafa að þetta sé stærsti leikurinn á ferlinum,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks í samtali við mbl.is.

Breiðablik mætir Víkingi á útivelli í  hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta á sunnudag. Blikar verða meistarar með sigri á meðan Víkingum nægir jafntefli.

„Jólin koma snemma í ár og maður hefur verið eins og krakki að bíða eftir pakkanum, sem er þessi leikur. Síðustu dagar hafa snúist um að sýna þolinmæði og þolgæði. Núna er maður kominn í rútínu og það má segja að næstu dagar séu lognið á undan storminum,“ sagði hann.

Breiðablik vann Stjörnuna, 2:1, í síðustu umferð. Hefði sá leikur tapast væru Víkingar orðnir meistarar. Höskuldur viðurkenndi að það hafi verið ákveðið stress fyrir þann leik og sérstaklega þar sem hann var einu gulu spjaldi frá því að fara í bann og missa af úrslitaleiknum.

„Þú hafðir öllu að tapa því þessi viðburður var í hættu og á sama tíma tækifæri til að vinna titilinn. Auðvitað var það þvílíkt mikilvægur leikur. Jafntefli dugði en við vildum sækja til sigurs, eins og venjulega. Það var erfiður leikur gegn góðu Stjörnuliði sem hefur verið á flottu skriði. Svo var maður sjálfur á þremur spjöldum og það voru margar breytur,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert