Það verða læti

Arnar Gunnlaugsson er á leiðinni í úrslitaleik gegn Breiðabliki á …
Arnar Gunnlaugsson er á leiðinni í úrslitaleik gegn Breiðabliki á sunnudag. Ólafur Árdal

Arnar Gunnlaugsson þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta er klár í úrslitaleikinn við Breiðablik á sunnudag, þar sem Íslandsmeistaratitilinn sjálfur er undir.

Víkingum nægir jafntefli til að verða meistari. Víkingur tryggði sér meistaratitilinn í lokaumferðinni árið 2021 með sigri á Leikni í Víkinni.

„Í augnablikinu eru þetta alltaf stærstu leikirnir. Árið 2021 var Leiknisleikurinn stærstur og núna þessi. Eftir fimm ár mun ég samt væntanlega benda á þennan leik. Leiknisleikurinn var gallalaus leikur og við getum leitað í hann.

Þetta er ekki bara úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn heldur á milli Breiðabliks og Víkings og öllu sem því hefur fylgt. Allt vesenið og öll skemmtunin hefur leitt okkur á þennan stað,“ sagði Arnar og hélt áfram:

Arnar Gunnlaugsson
Arnar Gunnlaugsson Ljósmynd/@vikingurfc

„Ég á við vesen í góðri merkingu. Það er mikill rígur og mikið gengið á. Það er gaman fyrir alla að smjatta á hvað er í gangi og þessháttar. Stjörnurnar leiða okkur í þennan leik og það verða örugglega læti.“

En hvernig leik á Arnar von á?

„Ef ég væri að leggja leikinn upp fyrir Blika myndi ég keyra upp tempóið gegn þreyttu liði, eins og Stjarnan gerði á móti okkur um daginn. Við erum samt líka með lið til að refsa svoleiðis, eins og við sýndum gegn Cercle Brugge. Þú verður að vera góður í öllu, eins og góðu meistaraliði sæmir, til þess að vinna þennan leik.“

Arnar sagði þreyttu liði, en Víkingur vann Cercle Brugge í Sambandsdeildinni í gær á meðan Breiðablik lék síðast á laugardag. Skiptir það máli?

„Ef þú bendir á sérfræðing sem kemur með hlutlaust mat þá myndi hann segja já. Í ljósi þess hvaða leikur þetta er og hvað er í húfi þá vona ég að það skipti engu máli,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert