Versta sem gat gerst í dag

Leifur Andri Leifsson er fyrirliði HK.
Leifur Andri Leifsson er fyrirliði HK. mbl.is/Ólafur Árdal

Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, var að vonum súr með frammistöðu liðsins eftir 7:0 skell gegn KR í lokaumferð Bestu deildar karla í fótbolta í dag.

HK þurfti jafntefli eða sigur til að halda sér í deildinni og treysta á hagstæð úrslit í leik Vestra gegn Fylki, sem voru þegar fallnir. Vestramenn voru í baráttu við HK um síðasta örugga sætið í Bestu deild og þeir töpuðu á endanum 3:1 á heimavelli gegn Fylki þannig að þetta var extra súrt fyrir HK.

„Það er ömurlegt að eiga svona leik í síðasta leik og vitandi af því að við hefðum þurft að fá eitthvað úr þessum leik til að halda okkur í deildinni. Svo ofan á það vinnur Fylkir þannig að þetta var það versta sem gat gerst fyrir okkur í dag. Við þurfum að taka smá tíma til að melta þetta og koma til baka að ári."

Leifur var verðlaunaður í síðasta leik fyrir að hafa spilað 400 mótsleiki fyrir HK. Hann hefur spilað allan sinn feril með liðinu og varð 35 ára gamall fyrr í mánuðinum. Leifur var spurður út í stöðuna á sér og hvort þetta hafi mögulega verið síðasti leikur hans á ferlinum.

Tek ekki ákvörðun núna

„Ekkert endilega. Það er fúlt að klára mótið svona. Ég tók ekki ákvörðun fyrir tímabilið hvort þetta yrði mitt síðasta tímabil og ég var ekkert að taka ákvörðun um þetta síðustu vikur eða mánuði. Ég vil sjá hvernig skrokkurinn leiðir mann og svo tek ég stöðuna í nóvember þegar ég fæ smá frí. Mig langar ekki að taka svona ákvörðun núna og undir þessum kringumstæðum meðan allt þetta var í gangi hjá félaginu núna síðustu leikina í mótinu.

Leifur Andri Leifsson reynir að stöðva Luke Rae í leiknum …
Leifur Andri Leifsson reynir að stöðva Luke Rae í leiknum í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Þannig að ég fer núna og hugsaði aðeins um hvað ég geri og svo þarf ég að sjá hvað félagið, þjálfarinn og aðrir vilja gera. Hvort þeir vilji halda mér sem leikmanni eða hvort ég fari í eitthvað annað hlutverk. Ég er HK-ingur og verð það alltaf, þannig að það verður að koma í ljósi hvort ég spili fótbolta áfram með félaginu eða verði í einhverju öðru," sagði Leifur Andri að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert