Virkilega ánægðir með þetta tímabil

Hallgrímur Jónasson er ánægður með gott tímabil.
Hallgrímur Jónasson er ánægður með gott tímabil. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var kátur er hann ræddi við mbl.is, enda nýbúinn að sjá sitt lið sigra Fram, 4:1, í lokaumferð Bestu deildar karla í fótbolta á heimavelli Framara í Úlfarsárdal.

Hallgrímur er ánægður með tímabil KA, en liðið varð bikarmeistari í fyrsta skipti og endaði í efsta sæti neðri hlutans.

„Ég er mjög ánægður. Það stendur upp úr að verða bikarmeistarar í fyrsta skipti í sögunni. Við gerðum þetta svo mjög vel eftir að það verð ljóst að við enduðum í neðri hlutanum og endum í sjöunda sæti. Við erum virkilega ánægðir með þetta tímabil.

Við vildum vinna þennan neðri hluta og það tókst. Í staðinn fyrir að detta niður þá héldum við áfram og gerðum þetta almennilega allan tímann. Við leyfðum líka ungum strákum að fá mínútur og við stöndum fyrir það hjá KA,“ sagði Hallgrímur.

Hápunkturinn var bikarmeistaratitill.
Hápunkturinn var bikarmeistaratitill. mbl.is/Ólafur Árdal

Fram opnaði leikinn með því að minnka muninn í 2:1 í seinni hálfleik, en eftir þriðja mark KA var ekki spurning hvoru megin sigurinn myndi detta.

„Fyrri hálfleikur var nokkuð góður og við hefðum getað skorað meira. Við vorum ekki eins góðir í byrjun seinni og Framarar voru betri eftir tvöfalda sóknarbreytingu. Eftir að við skorum úr skyndisókn var þetta aldrei spurning.“

Ætla sér stóra hluti

Hann er spenntur fyrir næsta tímabili, eftir góðan endir á yfirstandandi leiktíð. KA keppir í Sambandsdeildinni í annað sinn á þremur árum, eftir bikarsigurinn.

Hallgrímur Jónasson
Hallgrímur Jónasson Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér finnst við orðnir flott lið og það verður flott gulrót að fara í Evrópukeppni eins og í fyrra. Þetta er mjög flott KA-lið sem ætlar sér stóra hluti á næsta ári,“ sagði hann.

Fjölskyldan og veiðin 

Tímabilið er langt og strangt og ætlar Hallgrímur að njóta þess að geta loksins farið með stóra fjölskyldu í frí.

„Ég verð mest upp á fjöllum í rjúpu og næ aðeins að kúpla mig út. Ég fer svo með fjölskylduna í frí. Ég á fjögur börn og maður kemst ekki mikið í sumarfrí eða bústað um helgar þegar maður er fótboltaþjálfari. Maður nýtir tímann núna til að sinna fjölskyldunni og veiðinni,“ sagði hann.

Rúnar Kristinsson þjálfari KR er ekki sáttur við fyrirkomulag deildarinnar eins og það er núna, en Hallgrímur er ekki sammála.

„Mér finnst þetta flott eins og er þetta núna. Hvað værum við annars að gera þessar vikur? Við værum að spila einhverja æfingaleiki. Það er miklu skemmtilegra að spila deildarleiki. Ég er hrifinn af þessu fyrirkomulagi,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert