„Við lögðum upp með að spila okkar leik en við vorum alveg drulluslappir í í allan dag og áttum ekkert skilið,“ sagði Ingvar Jónsson, markmaður Víkinga, eftir 3:0-tap fyrir Breiðabliki þegar liðin áttust við í lokaleik Íslandsmóts karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði fyrir Breiðablik í fyrri hálfleik og síðan aftur snemma í þeim síðari en rothöggið kom á 80. mínútu þegar Aron Bjarnason skoraði þriðja mark Breiðabliks.
„Mér fannst Blikar mæta með fulla orku, sem gerði okkur erfitt fyrir því við vorum ekki alveg klárir í slaginn og ég veit ekki af hverju. Ég hafði alltaf trú að við myndum skora eitt og gera Blikana taugaóstyrka svo þegar þriðja mark Blika kom þá drap það leikinn,“ bætti Ingvar markmaður við.