Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tapaði gegn Bandaríkjunum, 3:1, í vináttulandsleik liðanna í Nashville í Bandaríkjunum í dag.
Leikurinn byrjaði rólega og ekki var mikið um hættuleg færi. Bandaríska liðið kom með nokkrar hættulegar fyrirgjafir en íslenska vörnin leysti vel úr því.
Á 31. mínútu skoraði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fyrsta mark leiksins en það kom beint út hornspyrnu. Casey Murphy, markmaður Bandaríkjanna, var furðulega staðsett og missti boltann yfir sig og í fjærhornið fór hann.
Heimakonur gátu jafnað metin á lokamínútu fyrri hálfleiks en Yazmeen Ryan skaut yfir eftir hættulega fyrirgjöf frá Mallory Swanson og staðan var 1:0 fyrir Íslandi í hálfleik.
Bandaríkjakonur reyndu eins og þær gátu að jafna metin og gerðu hverja skiptingu á eftir annarri en ekkert gekk til að byrja með.
Heimakonur fengu þó hættulegt færi á 63. mínútu þegar Sveindís Jane Jónsdóttir braut á Lindsay Horan rétt fyrir utan D-bogann. Horan tók spyrnuna sjálf en Cecelía Rán Rúnarsdóttir varði vel.
Lynn Williams jafnaði metin fyrir Bandaríkin á 72. mínútu eftir fyrirgjöf frá Alyssa Thompson, Sophia Smith hitti hann hræðilega en hann fór inn í teig þar sem hann barst til Williams sem setti boltann í netið af stuttu færi.
Aðeins fjórum mínútum síðar kom Lindsey Horan heimakonum yfir eftir klaufagang hjá íslenska liðinu. Bandaríkin fengu aukaspyrnu sem endaði á fjær, Glódís Perla Viggósdóttir lét boltann fara en Cecelía tók hann ekki, þess í stað setti Wiliams hann fyrir markið og Horan potaði boltanum í markið.
Í uppbótartíma skoraði Emma Sears þriðja mark Bandaríkjanna. Alyssa Thompson fékk boltann og var með pláss og keyrði að íslenska markinu en skaut í stöngina, Sears náði boltanum og negldi honum í fjær.
Þetta var svekkjandi niðurstaða eftir sterka byrjun íslenska liðsins.