Breiðablik Íslandsmeistari í þriðja sinn

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks lyftir meistaraskildinum.
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks lyftir meistaraskildinum. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik er Íslandsmeistari í knattspyrnu karla eftir sigur á Víkingi úr Reykjavík, 3:0, í hreinum úrslitaleik í lokaumferð Bestu deildarinnar á Víkingsvelli í kvöld. Ísak Snær Þorvaldsson skoraði tvö mörk Blika og Aron Bjarnason eitt.

Breiðablik er þar með Íslandsmeistari í knattspyrnu karla í þriðja sinn frá upphafi og í annað sinn á þremur árum. Blikar þurftu á sigri að halda til þess að tryggja sér titilinn og enduðu á því að vinna sér inn 62 stig en Víkingar, sem hefði nægt jafntefli vegna betri markatölu, enduðu með 59 stig.

Sigurinn var verðskuldaður þar sem Breiðablik var beinskeyttara og áræðnara í öllum sínum aðgerðum, skapaði sér fleiri hættuleg færi og gekk stærstan hluta leiksins mjög vel að loka á sóknaraðgerðir Víkings.

Blikar fagna með stuðningsfólki sínu í leikslok.
Blikar fagna með stuðningsfólki sínu í leikslok. mbl.is/Hákon Pálsson


Segja mætti að gestirnir úr Kópavoginum hafi spilað nánast fullkominn leik og uppskáru eftir því í stærstu viðureign tímabilsins.

Blikar við stjórn í fyrri hálfleik

Blikar voru öllu aðgangsharðari til að byrja með og fengu tvö fín færi til að komast yfir á sjöundu mínútu. Fyrst tók Davíð Ingvarsson fast skot rétt fyrir utan vítateig vinstra megin sem fór beint á Ingvar Jónsson sem varði út í teiginn.

Höskuldur Gunnlaugsson náði boltanum, fann sér pláss í teignum og lagði hann svo út á Andra Rafn Yeoman sem tók gott vinstri fótar skot úr D-boganum sem stefndi upp í samskeytin vinstra megin en Ingvar varði aftur fyrir.

Ísak Snær Þorvaldsson í baráttu við Gunnar Vatnhamar. Ísak skoraði …
Ísak Snær Þorvaldsson í baráttu við Gunnar Vatnhamar. Ísak skoraði tvö fyrri mörk Blika og lagði grunninn að sigrinum. mbl.is/Hákon Pálsson


Eftir stundarfjórðungs leik hoppuðu Erlingur Agnarsson og Kristinn Jónsson upp í skallaeinvígi, skullu saman og lágu óvígir eftir. Erlingur gat haldið leik áfram en Kristinn lauk leik eftir 20 mínútur.

Víkingar hófu að vinna sig betur inn í leikinn og áttu nokkrar hættulegar sóknir þar sem einungis vantaði upp á síðustu sendinguna og tókst heimamönnum ekki að ljúka þeim með skoti.

Fyrsta tilraun Víkinga kom loks á 26. mínútu þegar Danijel Dejan Djuric tók þrumuskot úr D-boganum en skotið úr mjög góðu færi fór langt framhjá.

Stuttu síðar skall hurð nærri hælum hjá Víkingum þegar gætti einhvers misskilnings milli Ingvars og Olivers Ekroths í öftustu línu, Ísak Snær náði boltanum en fyrsta snerting hans var afleit og Ingvar náði að handsama boltann.

Ísak Snær Þorvaldsson, sem kom Blikum yfir, í baráttu við …
Ísak Snær Þorvaldsson, sem kom Blikum yfir, í baráttu við Gunnar Vatnhamar í kvöld. mbl.is/Hákon


Ísak Snær gerði gæfumuninn

Á 37. mínútu braut Ísak Snær hins vegar ísinn og kom Blikum í forystu. Aron Bjarnason gaf þá fyrir af hægri kantinum, Ekroth og Karl Friðleifur Gunnarsson áttu í vandræðum með að hreinsa frá, boltinn datt fyrir fætur Ísaks Snæs sem potaði boltanum framhjá Ingvari af stuttu færi, 1:0.

Eftir markið voru Blikar við stjórn, líkt og nánast allan fyrri hálfleikinn, en færin urðu ekki fleiri og staðan því 1:0 í hálfleik.

Víkingar hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og unnu sér inn hornspyrnu eftir góðan sprett Gísla Gottskálks Þórðarsonar. Karl Friðleifur Gunnarsson tók hornspyrnuna frá hægri og fann þar Gunnar Vatnhamar sem náði góðum skalla fyrir miðjum vítateignum en hann hafnaði í stönginni.

Það voru hins vegar Blikar sem tvöfölduðu forystuna skömmu síðar, á 50. mínútu.

Danijel Dejan Djuric og Arnór Gauti Jónsson í baráttunni.
Danijel Dejan Djuric og Arnór Gauti Jónsson í baráttunni. mbl.is/Hákon


Blikar geystust í skyndisókn og fengu aukaspyrnu á hættulegum stað vinstra megin. Aukaspyrnan var hreinsuð frá, Damir Muminovic náði boltanum, lék laglega á Tarik Ibrahimagic og gaf fyrir, fyrirgjöfin var hreinsuð út í teiginn þar sem Höskuldur reyndi skot sem stefndi framhjá en Ísak Snær lúrði vinstra megin í teignum og stýrði boltanum í netið, 2:0.

Eftir tæplega klukkutíma leik var Ísak Snær svo nálægt því að fullkomna þrennuna þegar boltinn datt til hans vinstra megin í vítateignum eftir þunga sókn Breiðabliks. Hann náði skotinu en það var nálægt Ingvari sem gerði vel í að verja.

Skömmu síðar, á 61. mínútu, fann Erlingur Agnarsson Aron Elís Þrándarson í vítateignum, hann náði skoti en Viktor Örn Margeirsson komst fyrir það.

Mínútu síðar fékk Danijel Dejan dauðafæri til þess að minnka muninn þegar skalli hans af stuttu færi fór í þverslána eftir fyrirgjöf Karls Friðleifs frá vinstri. Víkingur hélt áfram í sókn í kjölfarið, Davíð  Örn Atlason gaf fyrir á Aron Elís sem náði skalla úr vítateignum en boltinn fór rétt framhjá marki Breiðabliks.

Gísli Gottskálk Þórðarson með boltann.
Gísli Gottskálk Þórðarson með boltann. mbl.is/Hákon


Aron innsiglaði sigurinn

Nokkur ró færðist yfir leikinn í kjölfarið þar sem liðin sköpuðu sér sitt hvort hálffærið. Nikolaj Hansen átti fyrst lausan skalla vinstra megin í vítateignum á 68. mínútu sem var laus og Anton Ari Einarsson greip boltann auðveldlega.

Fimm mínútum síðar átti Davíð Ingvarsson skot eftir skyndisókn Blika en það var laust og beint í fangið á Ingvari. Tíu mínútum fyrir leikslok gerði svo endanlega út um leikinn fyrir Breiðablik.

Kristinn Steindórsson vippaði þá boltanum snyrtilega inn fyrir vörn Víkinga, Aron ákvað að fylgja Kristni að málum og lyfti skoppandi boltanum laglega yfir Ingvar og staðan orðin 3:0.

Gísli Gottskálk Þórðarson umkringdur samherjum og mótherjum.
Gísli Gottskálk Þórðarson umkringdur samherjum og mótherjum. mbl.is/Hákon


Mestur vindurinn var þá úr Víkingum sem reyndu þó í örvæntingu að laga stöðuna. Næst því komst Davíð Örn þremur mínútum fyrir leikslok sem tók vinstri fótar skot úr D-boganum eftir sendingu Karls Friðleifs en skotið.

Í blálokin fékk Arnór Gauti Jónsson kjörið tækifæri til þess að skora fjórða mark Blika. Kristófer Ingi Kristinsson átti þá glæsilegan sprett, var negldur niður af Ingvari en náði að renna boltanum út á Arnór Gauta sem skaut að markinu sem var nánast opið en Gunnar komst fyrir skotið.

Ekki gerðist fleira og Vilhjálmur Alvar Þórarinsson flautaði leikinn af við gífurlegan fögnuð Blika.

Ísak Snær Þorvaldsson fagnar marki sínu.
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar marki sínu. mbl.is/Hákon
Anton Ari Einarsson handsamar boltann.
Anton Ari Einarsson handsamar boltann. mbl.is/Hákon
Stuðningsmenn Víkings láta í sér heyra.
Stuðningsmenn Víkings láta í sér heyra. mbl.is/Hákon
Stuðningsmenn Víkings fyrir leikinn.
Stuðningsmenn Víkings fyrir leikinn. mbl.is/Hákon
Þétt er setið í Víkinni.
Þétt er setið í Víkinni. mbl.is/Hákon
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 0:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu Damir skallar aftur fyrir eftir langan bolta fram. Það verða sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka