„Það vilja allir fá úrslitaleik í lokaumferðinni á milli tveggja góðra liða. Við erum allir mjög spenntir,“ sagði Nikolaj Hansen fyrirliði Víkings úr Reykjavík í samtali við mbl.is.
Víkingur mætir Breiðabliki í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í dag. Víkingi nægir jafntefli, á meðan Breiðablik þarf að sækja útisigur.
„Tilfinningin núna er mjög góð. Við höfum ekki tapað mörgum leikjum í ár, sérstaklega á heimavelli. Við gerum allt hvað við getum til að vinna á sunnudag. Þetta eru leikirnir sem allir vilja spila. Það verður full stúka, alveg eins og gegn Leikni árið 2021, þegar við þurftum að vinna til að verða meistarar.
Það hjálpar að kunna á svona leiki. Taugarnar verða aðeins minni. Við höfum verið rosalega góðir í úrslitaleikjum undanfarin ár. Við erum með gott lið og eru tilbúnir í leikinn,“ sagði sá danski á góðu íslenskunni sinni.
Víkingar unnu sterkan sigur á Cercle Brugge frá Belgíu, 3:1, í Sambandsdeildinni á fimmtudag. Daninn lék seinni hálfleikinn í leik sem Víkingur vann sannfærandi, þrátt fyrir að Danijel Dejan Djuric hafi klikkað á vítapunktinum, sem er fjórða vítið sem Víkingar skora ekki úr í Evrópukeppni á tímabilinu.
„Það var skemmtilegt og mér leið vel, sérstaklega eftir að ég kom inn á. Þetta er skemmtileg keppni og stórt fyrir íslenskan fótbolta að við unnum. Við hefðum líka getað unnið stærra, þar sem við fengum víti. Við erum örugglega lélegasta liðið í vítum í Evrópu í ár,“ sagði hann léttur.
Danski sóknarmaðurinn hefur glímt við meiðsli á tímabilinu en er klár í heilan leik í dag. „Ég er mjög góður. Ég spilaði 90 mínútur á Skaganum á þungum velli. En ég er klár í 90 mínútur,“ sagði Nikolaj.