Frammistaðan í dag ótrúleg

Blikarnir fagna með stuðningsmönnum sínum eftir leik.
Blikarnir fagna með stuðningsmönnum sínum eftir leik. Hakon Palsson

„Mér líður ógeðslega vel,“ sagði Kristófer Ingi Kristinsson leikmaður Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Víkingi, 3:0, í úrslitaleik Bestu deildarinnar í fótbolta í kvöld. Með sigrinum varð Breiðablik Íslandsmeistari í þriðja skipti.

„Við erum búnir að leggja svo mikið á okkur og frammistaðan í dag var ótrúleg. Það voru allir að leggja sig fram og það skilar okkur titlinum. Við höfðum engu að tapa og við ætluðum okkur að vinna þennan leik.

Það sást og menn voru ekki hræddir. Við ætluðum að bæta við mörkum eftir fyrsta markið. Hugarfarið skilar okkur svona langt,“ sagði Kristófer.

Honum leið vel vikuna fyrir leikinn stóra. „Það var smá stress fyrir Stjörnuleikinn en eftir sigur í honum voru menn spenntir fyrir þessum leik. Það var engin hræðsla og það kom ekkert annað en sigur til greina.“

Stuðningsmenn Breiðabliks fögnuðu á vellinum eftir leik og var stemningin gríðarleg.

„Þetta er frábært. Við fengum bara 250 miða en okkur leið eins og við vorum fleiri allan leikinn,“ sagði Kristófer.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert