„Mér fannst allt velta á hvor var hungraðri, hvor vildi meira og það skein á leik okkar í dag,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, eftir 3:0-sigur á Víkingum í Víkinni í kvöld þegar fram fór lokaleikur Íslandsmóts karla í fótbolta.
„Við höfum horft upp á Víking í síðustu leikjum með ótrúlega endurkomu svo það var ekkert hægt að slaka á fyrr en dómarinn flautaði til leiksloka, bætti fyrirliðinn við en líka að sínir menn hefðu verið viðbúnir.“
„Við vorum með alls kyns tilfinningar fyrir þennan leik en fyrst og fremst var það hungur í góð úrslit. Þjálfarateymi okkar lagði leikinn upp alveg upp í tíu og það var meiriháttar gott alveg frá byrjun. Við gáfum fá færi á okkur en það kom fyrir að Víkingar með sína gæðaleikmenn opnuðu pressuna okkar en heilt yfir fannst mér við vera sterkir og líkamlega sterkari í dag.“
Fyrirliðinn var ekkert að spá í framhaldið strax eftir leikinn. „Við ætlum núna að taka það sem við höfum verið að gera enn lengra, það má ýmislegt bæta en maður nennir ekkert að vera pæla í því einmitt núna alveg strax heldur fagna og njóta,“ sagði Höskuldur að lokum.