Andri Rafn Yeoman varnarjaxl Blika stóð sína vakt með sóma þegar Breiðablik vann Víkinga í Víkinni í kvöld, 3:0, í lokaleik Íslandsmóts karla í fótbolta en Blikar þurftu að vinna til að skáka Víkingum úr efsta sætinu, sem þeir gerðu og urðu fyrir vikið Íslandsmeistarar.
„Ég er alltaf hryllilega stressaður og þá skiptir ekki máli hvaða leikur það er í í svona leik þá magnast það bara upp og þá er bara að komast inná völlinn en svo er þetta bara fótboltaleikur í níutíu mínútur, þú reynir að gera þitt besta og vonandi gengur það,“ sagði Andri Rafn eftir leikinn en þetta er hans þriðji titill með félaginu.
Hann var í liðinu sem vann titilinn árið 2010 og svo aftur 2022 en Andri er lang leikjahæsti leikmaður Breiðabliks með 297 leiki í efstu deild og ríflega 460 mótsleiki fyrir félagið.
„Okkar hugsun var að leika eins og einkennir okkur, pressa vel maður á mann, reyna að halda í boltann þegar við getum en þegar spennustigið er svona hátt verður leikurinn oft ekki góður fótboltalega séð og það getur verið erfitt þegar það er svona mikið undir.“
Spurður hvort hann ætli að halda áfram var ekki viss alveg fyrst en svo alveg viss. „Ég veit ekki, það verður að koma í ljós en jú, auðvitað verður maður og hvílir sig bara aðeins næstu daga. Það er bjart yfir þessu klúbbi, mikil stemmning og meðbyr svo mér líst vel á allt utanumhaldið, leikmenn, þjálfara og allt það.“