Það er óboðlegt

Halldór Árnason saknar gamla fyrirkomulagsins, þrátt fyrir gengið á síðustu …
Halldór Árnason saknar gamla fyrirkomulagsins, þrátt fyrir gengið á síðustu leiktíð. mbl.is/Anton

Víkingur úr Reykjavík hafði betur gegn Cercle Brugge, 3:1, í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta á fimmtudag. Leikið var á Kópavogsvelli, þar sem Víkingsvöllur er ekki löglegur í deildarkeppninni.

Breiðablik, sem mætir Víkingi í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í dag, fékk ekkert stig í riðlakeppninni í Sambandsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Fyrirkomulagið á Sambandsdeildinni er gjörbreytt. Möguleikinn á að vinna er mun meiri með þessu fyrirkomulagi.

Að sama skapi er ég þakklátur að hafa fengið að upplifa rómantíkina við gamla skólann og þessa riðlakeppni sem maður hefur alist upp við. Ég sé eftir henni, þótt það sé erfiðara að vinna leiki þar,“ sagði Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks við mbl.is og hélt áfram:

„Við samgleðjumst Víkingi. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskan fótbolta að elta þetta 33. sæti á styrkleikalistanum. Þetta er mikill viðsnúningur á stuttum tíma, því við vorum á meðal fjögurra neðstu í Evrópu fyrir nokkrum árum.“

Cercle Brugge sendi ekki sitt sterkasta lið til Íslands og var refsað illa af Víkingunum, sem unnu sannfærandi sigur.

„Bæði við og Víkingar töpuðum fyrir liðum frá Kósóvó og Írlandi fyrr í sumar og það var frábært fyrir íslenskan fótbolta að fá sigur frá Víkingunum. Að sama skapi sendum við þau skilaboð að það er óboðlegt að senda varaliðið til Íslands þegar þú ert í fallbaráttu. Þá ertu sendur heim með skottið á milli lappanna. Þetta var vel gert hjá Víkingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert