Venjuleg vika fyrir utan brúðkaupið

Liðsmenn Breiðabliks stíga sigurdans eftir leik.
Liðsmenn Breiðabliks stíga sigurdans eftir leik. mbl.is/Hákon

„Ef við horfum á allan leikinn var þetta algjörlega sannfærandi. Þeir fengu sín færi og voru tvisvar nálægt því að skora en við vorum betra liðið,“ sagði Kristinn Steindórsson leikmaður Breiðabliks í samtali við mbl.is í kvöld.

Kristinn varð Íslandsmeistari í þriðja skipti með Breiðabliki í kvöld, eftir að liðið vann sannfærandi 3:0-útisigur á Víkingi í úrslitaleik Bestu deildarinnar.

„Við erum búnir að vera heitasta liðið frá því á miðju sumri og við ætluðum að halda áfram sömu frammistöðu og því sem við erum búnir að vera að gera. Við breyttum engu, heldur sóttum til sigurs,“ sagði hann.

Breiðablik varð meistari án þess að spila árið 2022, en árið 2010 tryggði Breiðablik sér titilinn á vellinum.

„Þetta er sturlað. Þetta er öðruvísi en síðasti úrslitaleikur, þegar maður var mun yngri og töffari. Nú skilur maður betur hvað er erfitt að gera þetta. Við vorum með allt á móti okkur en það var extra sætt að gera þetta á þessum velli,“ sagði Kristinn.

Hann átti ógleymanlega viku, sem var samt ósköp venjuleg fyrir utan Íslandsmeistaratitilinn og brúðkaupið sitt.

„Ég gifti mig og svo var vetrarfrí og ég var með stráknum. Fyrir utan brúðkaupið var þetta venjuleg vika, hakk og spagettí í matinn,“ sagði Kristinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert