„Við ætluðum að vinna, það var planið, ætluðum að stjórna leiknum með og án bolta,“ sagði Sölvi Geir Ottesen Jónsson sem var þjálfari Víkinga í þessum leik því Arnar Gunnlaugsson, aðalþjálfari liðsins, var í leikbanni og varð að horfa á leikinn úr stúkunni.
Sölvi Geir sagði mikilvægi leiksins hafa haft áhrif á frammistöðuna. „Eðlilega byrjuðu menn leikinn af varfærni þar sem hvorugt liðið tók mikla áhættu en ég hefði viljað að við hefðum verið aðeins hugrakkari með boltann til að reyna losa þessa pressu sem Blikar settu á okkur. Við tókum enga áhættu í fyrri hálfleik og fyrir vikið var lítið um spil og þetta líklega ekki fallegasti leikur, sem hefur verið spilaður.“
„Við töluðum um í hálfleik að við skyldum fara út á völl og spila boltanum meira, reyna að opna Blikana meira og mér fannst við gera það enda fengum við færi til að koma okkur aftur inn í leikinn en eins og svo oft í boltanum þá er það þannig að ef þú nýtir ekki augnablikin sem þú færð í leiknum færðu ekkert. Við reyndum og reyndum, héldum í trúna allan leikinn en fótboltinn er bara svona og það er hrikalega svekkjandi að sjá enn einn úrslitaleikinn enda svona,“ sagði þjálfarinn.
Víkingar hafa staðið í ströngu í sumar en Sölvi Geir taldi að það hefði ekki breytt öllu. „Við ræddum ekkert um þreytu fyrir leik. Í svona leik þar sem adrenalínið er mikið þá drífur það mann áfram svo ég held að það hafi ekki verið mikil þreyta hjá okkur en eins og leikurinn spilaðist þá hefur jafnvel verið komin þreyta þegar Breiðablik var tvö-núll yfir undir lokin, þá gæti hafa vantað einhverja orku. Við höfum líka spilað mun fleiri leiki en Breiðablik og styttra er síðan við spiluðum síðasta leik okkar svo það er ekkert óeðlilegt að okkur hafi vantað aðeins meiri orku. En svona er að vera í öllum keppnum alveg fram í lokin, það tekur sinn toll en ég er mjög stoltur af liðinu og að vera Víkingur í dag,“ bætti þjálfarinn við og var ánægður með sitt félag.
„Ég sé hvað margir í félaginu leggja hart að sér og það þarf í svona velgengni eins og hjá Víkingi. Allir hafa lagt sitt á vogarskálarnar og standa saman enda er Víkingur í heild ein liðsheild þar sem allir leggja sitt fram, hvort það eru sjálfboðaliðar, starfsfólkið í húsinu, leikgreinendur, sjúkraþjálfarar og allt. Allir búnir að leggja á sig mikla yfirvinnu og þrátt fyrir tap hér í dag er maður stoltur að vera Víkingur og yfir þeim árangri sem við höfum náð þó það sé hrikalega svekkjandi að taka ekki bikarinn í dag.“