Mikill rígur hefur myndast á milli Víkings og Breiðabliks undanfarin ár og mætast þau í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta í karlaflokki í Víkinni á sunnudag. Víkingur verður meistari ef Breiðablik vinnur ekki en Kópavogsliðið meistari með sigri.
„Þetta eru hörkukeppninautar og það hækkar rána hjá öllum að hafa svona ríg. Það er auka krydd í tilveru fótboltamannsins og áhorfenda. Það er ekki sjálfgefið að vera að keppa við eitt lið um hitt og þetta.
Það er skotið föstum skotum og tekist fast á. Maður mun sakna þess þegar maður lítur í baksýnisspegilinn,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks í samtali við mbl.is.
Víkingur vann belgíska liðið Cercle Brugge á Kópavogsvelli í Sambandsdeildinni á fimmtudag. Þrátt fyrir ríginn samgladdist Höskuldur Víkingunum.
„Við værum að sjálfsögðu frekar til í að vera að vinna Evrópuleik en að horfa á Víkingana gera það á okkar heimavelli. Víkingarnir eru samt ekki óvinir okkar og það er gott fyrir íslenskan fótbolta þegar íslensk lið gera vel í Evrópu. Við viljum taka yfir þetta 33. sæti á styrkleikalistanum til að auka möguleika íslenskra liða,“ sagði hann.