„Ég er með jákvæðan fiðring í maganum,“ sagði Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks í samtali við mbl.is. Breiðablik mætir Víkingi úr Reykjavík í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta í dag.
Víkingum nægir jafntefli og þarf Breiðablik því að sækja til sigurs á Víkingsvelli. Breiðablik tryggði sér úrslitaleikinn með sigri á Stjörnunni síðastliðinn laugardag, 2:1. Stuttu áður vann Víkingur hádramatískan sigur á ÍA, 4:3.
„Ég er miklu rólegri núna en fyrir Stjörnuleikinn, sérstaklega eftir þessa rússibanareið sem laugardagurinn var. Það var mikil pressa að fá úrslitaleik í þessari deild. Eins og laugardagurinn þróaðist var undir okkur komið að vinna Stjörnuna.
Pressan var mikil en menn stóðust hana hrikalega vel. Það voru ákveðnir hlekkir á mönnum, þótt það hafi heilt yfir gengið vel að forðast utanaðkomandi pressu á tímabilinu. Menn voru mjög léttir eftir leik og mönnum líður gríðarlega vel núna. Við erum fullir tilhlökkunar,“ sagði hann.
Fyrir tíu árum mættust Stjarnan og FH í úrslitaleik í lokaumferðinni. Þá vann Stjarnan með marki Ólafs Karls Finsen úr víti í uppbótartíma eftir viðburðaríkan og dramatískan leik.
„Sá leikur var litaður af hlutum sem leikmenn höfðu ekki stjórn á. Vonandi verður það ekki svoleiðis í þessum leik og að frammistaðan og það sem menn leggja á sig frá upphafi leiks og til loka hans ráði úrslitum. Ef það verður dramatík vona ég að leikmennirnir búi hana til.“
Nokkur rígur hefur myndast á milli Víkings og Breiðabliks undanfarin ár, þar sem liðin hafa barist á toppi íslenska fótboltans. Það er meira undir þegar þau mætast.
„Þetta er orðin býsna löng saga. Fyrir nokkrum árum fóru þessi tvö félög að fara aðrar leiðir en önnur íslensk lið í spilamennsku og taka aðra nálgun. Það er eðlilegt að bera þessi lið saman, þar sem þau hafa verið að berjast um titlana síðustu 3-4 ár. Eðlilega verður þá til rígur sem gerir mikið til að krydda þetta allt saman,“ sagði Halldór.
Hann er á sínu fyrsta heila tímabili sem aðalþjálfari og Halldór er stoltur af árangrinum, burtséð frá því hvernig leikurinn á sunnudaginn fer.
„Fótbolti er liðsíþrótt og það er ekki einhver einn sem skapar árangurinn. Liðið, liðsheildin og þjálfarateymið koma að þessu saman. Það væri slæmt fyrir mig að ætla að skilgreina allt tímabilið út frá einum leik.
Það yrði samt gríðarlegur heiður og ég yrði stoltur ef ég næ að leiða þetta lið til sigurs á Íslandsmótinu. Ég verð samt alltaf stoltur af tímabilinu og þeim árangri sem við höfum náð, sama hvernig leikurinn á sunnudag fer,“ sagði Halldór.