Mjög svekkt og sjúklega ánægð

Bandaríski fyrirliðinn Lindsay Horan umkringdur landsliðkonum Íslands.
Bandaríski fyrirliðinn Lindsay Horan umkringdur landsliðkonum Íslands. AFP/Johnnie Izquierdo

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði mark Íslands í tapi fyrir Bandaríkjunum, 3:1, í seinni vináttulandsleik þjóðanna í Nashville í gærkvöldi.

„Ég er mjög svekkt. Steini [Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari] sagði að þetta hefði verið í fyrsta skipti síðan hann tók við sem við missum niður 1:0-forystu, sem er greinilega svekkjandi. 

Þær skora líka auðveld mörk þar sem við áttum að gera betur. Auðvitað er þetta eitt besta landslið heims þannig við byggjum ofan á þessa frammistöðu,“ sagði Karólína í viðtali við KSÍ beint eftir leik. 

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langt síðan ég skoraði 

Ísland tapaði báðum leikjum 3:1 en stóð ágætlega í bandaríska liðinu. 

Eruð þið sáttar við verkefnið?

„Getum ekki verið annað en það. Vorum inn í báðum leikjum og skorum. Víð áttum góða spilakafla inn á milli þannig að við getum gengið sáttar frá borði. 

Við breyttum mikið til í þessum leikjum og margir spiluðu. Það sást ekki á liðinu að það væri verið að breyta. Mikill stígandi í liðinu.“

Mark Karólínu kom beint úr hornspyrnu, hennar 10. mark fyrir íslenska landsliðið. 

Hvernig var að sjá boltann enda í netinu?

„Ég er gríðarlega sátt, langt síðan ég skoraði. Er sjúklega ánægð,“ sagði Karólína Lea. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert