Kristinn Jónsson, leikmaður Íslandsmeistara Breiðabliks í knattspyrnu, þurfti að fara meiddur af velli snemma leiks þegar liðið lagði Víking úr Reykjavík 3:0 í hreinum úrslitaleik í lokaumferð Bestu deildarinnar á sunnudagskvöld.
Kristinn lenti í samstuði við Erling Agnarsson, leikmann Víkings, þegar þeir hoppuðu upp í skallabolta og þurfti af þeim sökum að fara af velli á 20. mínútu leiksins á meðan Erlingur gat haldið leik áfram.
Var Kristinn af þeim sökum fluttur á sjúkrahús og greinir Vísir frá því að hann hafi kinnsbeinsbrotnað og fengið heilahristing. Fagnaði vinstri bakvörðurinn því Íslandsmeistaratitlinum á sjúkrahúsi.