Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, varð langefstur í einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni, fyrir Bestu deild karla í fótbolta á keppnistímabilinu 2024.
Höskuldur lék alla 27 leiki Íslandsmeistara Breiðabliks og fékk í þeim samtals 25 M, og var því skammt frá því að vera með eitt M að meðaltali í leik.
Hann átti mjög jafnt og gott tímabil með Blikunum sem endurspeglast í einkunnagjöfinni því Höskuldur fékk eitt M fyrir flesta leiki liðsins í öllum mánuðum tímabilsins. Ágústmánuður stóð þó upp úr hjá fyrirliðanum sem fékk þá þrisvar tvö M og samtals níu M í sex leikjum meistaranna.
Höskuldur var þá útnefndur besti leikmaður deildarinnar í ágúst og hann var auk þess þrisvar varamaður í úrvalsliði mánaða, í apríl, maí og í haust.
Höskuldur var í heildina sex M-um á undan næstu mönnum og níu á undan næsta liðsfélaga sínum og samherja á miðjunni hjá Blikum, Viktori Karli Einarssyni.
Eins og sést á úrvalsliði ársins hér til hliðar er Höskuldi þar stillt upp sem hægri bakverði, en það er vegna samsetningar liðsins og þess að Höskuldur hefur á undanförnum árum oft leikið í bakvarðarstöðunni og spilað hana á mjög sókndjarfan hátt. Hann var hins vegar fyrst og fremst í sinni gömlu stöðu sem miðjumaður á þessu meistaraári Breiðabliks.
Fimm leikmenn deildu öðru til sjötta sæti í M-gjöfinni að þessu sinni og þrír þeirra eru Valsmenn.
Gylfi Þór Sigurðsson úr Val fékk 19 M og lék þó aðeins 19 leiki með Val í Bestu deildinni á sínu fyrsta tímabili í íslenska fótboltanum en hann missti alls af átta leikjum liðsins vegna meiðsla. Hann var í úrvalsliði Morgunblaðsins bæði í apríl og ágúst og varamaður í liði haustmánaða sem birt var í blaðinu í gær. Gylfi fékk fjórum sinnum tvö M fyrir frammistöðu sína í ár.
Jónatan Ingi Jónsson úr Val fékk 19 M í 26 leikjum Hlíðarendaliðsins. Hann átti sérstaklega góðan fyrri hluta tímabilsins og var efstur í M-gjöfinni þegar mótið var hálfnað. Jónatan fékk fjórum sinnum tvö M, var besti leikmaður deildarinnar í maí og í úrvalsliðinu í maí og júní.
Benoný Breki Andrésson úr KR fékk 19 M í 26 leikjum Vesturbæinga. Hann átti einstaklega góðan endasprett og fékk 11 M í síðustu sjö leikjum KR-inga, þar af tvisvar þrjú M í leik. Hann fékk auk þess einu sinni tvö M og var besti leikmaður haustmánaða í Bestu deildinni eins og fjallað var ítarlega um í blaðinu í gær. Benoný sló markamet efstu deildar með því að skora 21 mark fyrir KR og var auk þess valinn besti ungi leikmaður deildarinnar.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag og þar er birt úrvalslið tímabilsins 2024 ásamt því að sjá má 7-8 bestu leikmenn í hverju liði samkvæmt M-gjöfinni.