Knattspyrnumaðurinn Alexander Helgi Sigurðarson er genginn til liðs við KR frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki. Kemur hann á frjálsri sölu og er búinn að skrifa undir þriggja ára samning, út tímabilið 2027.
Þar með endurnýjar Alexander Helgi kynnin við þjálfarann Óskar Hrafn Þorvaldsson, en þeir unnu saman um árabil hjá Breiðabliki.
Hann á að baki 79 leiki fyrir Breiðablik í efstu deild og skoraði í þeim fimm mörk. Varð Alexander Helgi, sem er 28 ára miðjumaður, Íslandsmeistari með þeim grænklæddu síðastliðinn sunnudag.
„Við bjóðum Alexander Helga velkominn í KR og vonumst til að sjá hann blómstra í KR-treyjunni á næsta tímabili,“ sagði meðal annars í tilkynningu knattspyrnudeildar KR.