Núna lét ég hjartað ráða

Þorlákur Árnason þjálfaði í tvö ár á Akureyri áður en …
Þorlákur Árnason þjálfaði í tvö ár á Akureyri áður en hann fór til Portúgals. Nú liggur leiðin til Vestmannaeyja. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þorlákur Árnason var á dögunum ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í fótbolta. Gerði hann þriggja ára samning við ÍBV og tekur við af Hermanni Hreiðarssyni, sem hætti með liðið eftir að hann kom því upp í Bestu deildina, eftir eitt tímabil í 1. deild.

Þorlákur, sem er 55 ára, er nýhættur með kvennalið Damaiense í Portúgal og var því ekki lengi án félags. „Þetta gerðist hratt. Ég lauk störfum í Portúgal og kom heim og var varla sestur í sófann þegar Eyjamenn hringdu,“ sagði Þorlákur í samtali við Morgunblaðið.

Hann sagði þó ekki upp starfi sínu hjá Damaiense til að taka við ÍBV. Hann var með starf í Kína í sigtinu, en samþykkti að lokum tilboð ÍBV. Þorlákur var áður yfirmaður knattspyrnumála í Hong Kong og þekkir því vel til fótboltans í Asíu.

Vildi frekar þjálfa

„Ég hætti í Portúgal því ég var í viðræðum við knattspyrnusamband Kína um vinnu á bak við tjöldin þar. Stærsta ástæða þess að ég fór ekki þangað er að það var ekki þjálfarastarf sem var í boði þar heldur meiri skipulagsvinna. Þannig var starfið í Hong Kong líka. Ég vil hins vegar þjálfa, vera á hliðarlínunni og á æfingasvæðinu,“ útskýrði Þorlákur.

Byrjaði fimm ára í Eyjum

Það virtist aðeins tímaspursmál hvenær Þorlákur tæki við ÍBV, þar sem hann er uppalinn í Vestmannaeyjum. Þá hefur félagið áður sýnt honum mikinn áhuga.

„Ég er uppalinn í Eyjum. Ég byrjaði fótboltaferilinn þar fimm ára og hef haft sterka tengingu við Eyjar og ÍBV síðan. Þetta hefur líka legið í loftinu. Ég hef 3-4 sinnum farið í viðræður og nú lét ég hjartað ráða þegar ég tók þessa ákvörðun. Ég vildi vinna fyrir ÍBV.“

Íslandsmótið of langt

Þorlákur hefur ekki þjálfað í efstu deild karla á Íslandi frá því 2005, er hann var á hliðarlínunni hjá Fylki. Þá skipuðu tíu lið deildina og voru spilaðar 18 umferðir. Nú eru liðin tólf, umferðirnar 27 og deildinni skipt eftir 22 umferðir.

„Það er frábært að sjá hvernig mótið spilaðist í ár. Það var jafnt á toppi og botni og við fengum hreinan úrslitaleik. Ég er hins vegar ekki alsáttur við þetta fyrirkomulag. Ég vil ekki vera með of stóra dóma en allir sjá að mótið er of langt.

Það er betra að ljúka því í byrjun október en í lok mánaðarins. Það er alveg hægt að spila í landsleikjahléum á Íslandi, því það er ekki eins og það séu margir í þessum liðum í landsliðum. Það er það eina, annars er þetta fyrirkomulag flott.“

Viðtalið við Þorlák má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert