Ríkissaksóknari hefur áfrýjað niðurstöðu dóms í máli Alberts Guðmundssonar knattspyrnumanns í Fiorentina. Albert var fyrir þremur vikum sýknaður í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur, en hann hafði verið ákærður fyrir nauðgun.
Þetta kom fyrst fram á Vísi.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður Alberts segir í samtali við mbl.is að ákvörðunin komi á óvart. „Ákvörðun ríkissaksóknara um að áfrýja málinu til Landsréttar kemur á óvart. Enda er dómur héraðsdóms mjög vel rökstuddur og lögfræðilega réttur,“ segir Vilhjálmur.
Málið hafði upphaflega verið fellt niður af héraðssaksóknara en sú niðurstaða var kærð til ríkissaksóknara sem ákærði í málinu.
Albert er meðal fremstu knattspyrnumanna Íslands nú um stundir og leikur með Fiorentina á Ítalíu.
Þinghald fór fram fyrir lokuðum dyrum til að verja friðhelgi meints brotaþola. Lögfræðingur konunnar hefur gefið út að fjölskylda hennar tengist Alberti vinaböndum frá því hún var barn.
Fréttin hefur verið uppfærð