Allt öðruvísi en að fagna á Blika-barnum

„Þetta var gjörólíkt og árið 2022 varð maður auðvitað Íslandsmeistari í fyrsta sinn,“ sagði Íslandsmeistarinn og knattspyrnumaðurinn Höskuldur Gunnlaugsson í Dagmálum.

Höskuldur varð Íslandsmeistari í annað sinn á dögunum með uppeldisfélagi sínu Breiðabliki eftir sigur gegn Víkingi úr Reykjavík í Fossvoginum en Höskuldur hefur verið fyrirliði Breiðabliks frá árinu 2020.

Litu aldrei til baka

Höskuldur varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 2022 þegar Breiðablik fagnaði sigri í Bestu deildinni með miklum yfirburðum undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar.

„Fyrsti titillinn er alltaf fyrsti titillinn og hann mun alltaf hafa einstaka þýðingu fyrir mann fyrir þær sakir,“ sagði Höskuldur.

„Við litum aldrei til baka á því tímabili og við verðum meistarar þegar þrjár til fjórar umferðir eru eftir. Við vorum á Blika-barnum í sófanum þegar við verðum meistarar og það var ótrúlega gaman. Það breyttist í ógleymanlegt kvöld og vikur.

Í ár réðist þetta á lokaflautinu í lokaleik. Það var miklu meira sjokk, með einhverjum 1.000 stuðningsmönnum. Maður var að knúsa stuðningsmenn á milli þess sem maður knúsaði liðsfélagana, og svo var maður mættur á trommurnar líka með Hilmari Jökli,“ sagði Höskuldur meðal annars.

Viðtalið við Höskuld í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Höskuldur Gunnlaugsson.
Höskuldur Gunnlaugsson. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka