Albert má spila fyrir landsliðið

Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson má spila fyrir íslenska landsliðið þrátt fyrir að ríkissaksóknari hafi áfrýjað niðurstöðu dóms í máli hans til Landsréttar.

Albert var í ágúst á síðasta ári kærður fyrir nauðgun en málið hafði upp­haf­lega verið fellt niður af héraðssak­sókn­ara áður en sú niðurstaða var kærð til rík­is­sak­sókn­ara. Ríkissaksóknari ákærði þá í mál­inu áður en það var fellt niður fyrir rúmum þremur vikum.

Þrátt fyrir að ríkissaksóknari hafi áfrýjað málinu til Landsréttar er Albert gjaldgengur í landsliðið sem stendur vegna nýlegra breytinga á viðbragðsáætlun KSÍ, líkt og Vísir vakti athygli á fyrir helgi.

Samkvæmt áætluninni mega leikmenn ekki spila fyrir landslið séu meint alvarleg brot þeirra til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum.

Einstaklingur fái að njóta vafans

Í greinargerð sem fylgir viðbragðsáætluninni segir hins vegar:

„Taka verði hæfilegt tillit til grundvallarreglu í sakamálum. Það er, með þeim hætti að þegar mál hafa verið felld niður, eða að loknum sýknudómi, þá megi einstaklingur njóta vafans þannig að mál teljist ekki vera til meðferðar frá þeim tímapunkti. Það eigi við þó svo ákvörðun um niðurfellingu sé kærð eða sýknudómi áfrýjað.“

Þar sem Albert var sýknaður og sýknudómnum áfrýjað mætti Åge Hareide landsliðsþjálfari því velja hann í næsta landsliðshóp, en liðið á tvo leiki fyrir höndum í Þjóðadeild Evrópu um miðjan mánuðinn.

Í samtali við Vísi staðfesti Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ, að greinargerðin gildi og að Albert mætti spila.

Af því verður þó ekki þar sem Albert er frá vegna meiðsla og verður fram yfir næsta landsleikjahlé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert