Knattspyrnumarkvörðurinn Jökull Andrésson og enska félagið Reading hafa komist að samkomulagi um að rifta samningi leikmannsins við félagið.
Hinn 23 ára gamli Jökull var lánaður frá félaginu til Aftureldingar seinni hluta nýliðins tímabils og átti sinn þátt í að liðið komst upp í úrvalsdeildina í fyrsta skipti með sigri á Keflavík í úrslitum umspilsins.
Jökull var aðeins 16 ára gamall þegar hann kom til Reading árið 2017. Hann lék ekki aðalliðsleik með Reading, en var lánaður til Hungerford Town, Exeter City, Morecambe, Stevenage og Carlisle United í neðri deildum Englands.
Hann lék með öllum yngri landsliðum Íslands og á einn leik með A-landsliðinu, vináttuleik gegn Úganda árið 2022.