Pétur Guðmundsson var besti dómarinn í Bestu deild karla í fótbolta árið 2024 samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.
Pétur, sem var elsti dómari deildarinnar, 55 ára gamall, dæmdi 18 leiki í deildinni á árinu og fékk í þeim meðaleinkunnina 7,89 hjá blaðinu en einkunnir dómara eru gefnar á skalanum frá 1 til 10.
Hann var með nokkra yfirburði á næstu menn en Erlendur Eiríksson, næstelsti dómarinn, 53 ára, varð í öðru sæti af þeim átta dómurum sem dæmdu bróðurpart leikjanna. Erlendur dæmdi 17 leiki og fékk meðaleinkunnina 7,47.
• Ívar Orri Kristjánsson varð þriðji en hann dæmdi 19 leiki og fékk meðaleinkunnina 7,37.
Í Bestu deild kvenna dæmdi mun stærri hópur dómara, eða samtals 33 dómarar. Tíu þeirra dæmdu fimm leiki eða fleiri og besti dómari deildarinnar samkvæmt einkunnagjöfinni var Arnar Ingi Ingvarsson.
• Arnar Ingi dæmdi fimm leiki og var með meðaleinkunnina 8,20.
• Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson var annar en hann dæmdi sex leiki og fékk meðaleinkunnina 8.
• Ásmundur Þór Sveinsson varð þriðji en hann dæmdi fimm leiki og fékk meðaleinkunnina 7,80.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.