Eru með háskólagráðu í því

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/@vikingurfc

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, hyggst spenntur fyrir leiknum á morgun gegn Borac Banja Luka frá Bosníu í 3. umferð Sambandsdeildarinnar á Kópavogsvelli.

Víkingar eru með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar og geta með sigri komið sér í góða stöðu í deildarkeppninni.

„Stemningin er mjög góð. Þetta verður svaka leikur og það er mikið undir. Með sigri í þessum leik erum við komnir í smá draumastöðu. 

Þetta nýja kerfi gefur okkur þá möguleika að gulltryggja okkur sæti í umspilinu með því að fá eitt til tvö stig í viðbót. 

Mikið að keppa að, gegn öflugum mótherjum sem hafa byrjað deildina sterkt. 

Þetta er gríðarlega sterkt lið með mikla þekkingu,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag. 

Allt öðruvísi lið en Cercle Brugge

Víkingar unnu Cercle Brugge frá Belgíu, 3:1, síðast á Kópavogsvelli. Arnar býst við öðruvísi leik á morgun.

„Þeir spila mun öðruvísi heima og úti í þessum Evrópuleikjum og eru allt öðruvísi en Cercle Brugge. 

Belgarnir voru mikið að pressa og opnari til baka. Þetta lið er með meiri þekkingu á öllum sviðum fótboltans og tilbúið að spila hvernig sem er. 

Lið frá þessum heimshluta eru líka með háskólagráðu í myrku hlutum leiksins. Við verðum að passa að láta það ekki fara í taugarnar á okkur,“ bætti Arnar Gunnlaugsson við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka