Sérstaklega gegn Breiðabliki

Ari Sigurpálsson ásamt Davíð Erni Atlasyni.
Ari Sigurpálsson ásamt Davíð Erni Atlasyni. mbl.is/Óttar

„Ég er bjartsýnn fyrir morgundeginum,“ sagði sóknarmaðurinn Ari Sigurpálsson fyrir leik Víkings úr Reykjavík gegn bosníska liðinu Borac Banja Luka í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu á Kópavogsvelli á morgun.

Með sigri á morgun komast Víkingar í sex stig og í leiðinni í góða stöðu um að komast í umspilið eftir áramót. 

Þetta er fyrsti leikur Víkinga eftir tapið fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks, þar sem að titilinn fór í Kópavoginn.

„Það var mikið högg að tapa og sérstaklega á móti Breiðabliki. Maður er svekktur og vill fara til baka í tímann og breyta þessu, en við getum ekki gert það. 

Æfingarnar í vikunni hafa verið virkilega sterkar og ég er bjartsýnn fyrir morgundeginum,“ sagði Ari. 

Kunna að spila Evrópuleiki

Getur tapið gegn Breiðabliki gefið ykkur aukinn kraft?

„Vonandi, maður veit aldrei. Við verðum að nota þennan leik til að sýna að við séum með alvöru liðsheild og karakter. 

Ég held að leikurinn verði lokaðri fyrir okkur fram á við. Mótherjarnir eru varnarsinnaðri og kunna að spila Evrópuleiki. Vonandi getum við nýtt okkar gæði til að skora mörk og halda markinu hreinu.“

Við hverju megum við búast á morgun? 

„Þið megið búast við sigri og vonandi mæta sem flestir á leikinn. Það var svo mikil stemning gegn Cercle Brugge, allir að hvetja. Þá byrjum við að spila fótbolta og þetta helst allt í hendur,“ bætti Ari Sigurpálsson við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert