Annar frækinn Evrópusigur Víkinga

Víkingur úr Reykjavík vann annan glæsilegan sigur sinn í röð í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla er liðið lagði Borac Banja Luka að velli, 2:0, í 3. umferð keppninnar á Kópavogsvelli í dag.

Víkingur hefur þar með unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildarkeppninni og tvo í röð, báða á heimavelli sínum í keppninni í Kópavogi. Víkingur er eftir sigurinn í 10. sæti deildarkeppninnar með sex stig.

Víkingur stýrði ferðinni í fyrri hálfleik og fékk sitt fyrsta færi eftir aðeins þriggja mínútna leik. Fyrirliðinn Nikolaj Hansen gerði þá vel er hann náði skoti úr þröngu færi í vítateignum en Filip Manojlovic gerði vel í að verja í hornspyrnu.

Áfram héldu Víkingar að ógna og náðu forystunni á 17. mínútu. Karl Friðleifur gerði þá vel er hann kom boltanum fyrir af vinstri kantinum, fann þar Hansen sem var grimmur í vítateignum og náði skoti á lofti sem fór af varnarmanni, breytti aðeins um stefnu þaðan sem boltinn fór í netið, 1:0.

Aðeins sex mínútum síðar tvöfaldaði Karl Friðleifur forystuna.

Eftir langt innkast frá hægri vann Aron Elís Þrándarson skallabolta í vítateignum, fleytti boltanum áfram þar sem Danijel Dejan Djuric var í baráttunni, boltinn fór af varnarmanni og barst þaðan til Karls Friðleifs sem skoraði með laglegu vinstri fótar skoti upp í þaknetið vinstra megin úr markteignum, 2:0.

Stuttu síðar, á 26. mínútu, komst Gísli Gottskálk Þórðarson nálægt því að skora þriðja markið. Danijel Dejan sendi hann þá í gegn, Gísli Gottskálk náði góðri fyrstu snertingu í vítateignum, var í kjörstöðu og tók skotið undir pressu en það fór nokkuð framhjá markinu.

Víkingur var eftir þetta áfram með góð tök á leiknum, Borac reyndi aðeins að færa sig upp á skaftið undir lok fyrri hálfleiks en náði ekki að skapa sér nein færi.

Staðan var því 2:0 í leikhléi eftir svo gott sem fullkominn fyrri hálfleik Víkings.

Markalaust í síðari hálfleik

Snemma í síðari hálfleik fékk Hansen gott færi til þess að skora þriðja mark Víkings. Danijel Dejan sendi hann þá í gegn, Daninn fór sjálfur og kom sér í góða skotstöðu vinstra megin í vítateignum, náði hættulegu skoti upp í nærhornið en Manojlovic varði vel.

Gestirnir frá Bosníu áttu sínar fyrstu eiginlegu marktilraunir í leiknum fyrir og eftir færið hjá Hansen. Varamaðurinn Nikola Sreckovic  tók fyrst skot úr þröngri stöðu vinstra megin í vítateignum sem Ingvar Jónsson varði með fótunum og Sandi Ogrinec átti gott skot rétt utan teigs sem Ingvar varði vel til hliðar.

Eftir rúmlega klukkutíma leik komst varamaðurinn Ari Sigurpálsson í góða stöðu vinstra megin í vítateignum eftir glæsilega stungusendingu Viktors Örlygs Andrasonar. Ari ákvað að skjóta sjálfur þó hann væri með þrjá samherja sér við hlið, skotið var hins vegar laflaust og Manojlovic greip boltann.

Ari gerði sig aftur líklegan á 73. mínútu þegar Víkingar unnu boltann ofarlega á vellinum, hann lék með boltann inn í vítateig, færði sig í hann miðjan, lét skotið ríða af en það fór nokkuð framhjá markinu.

Varamaðurinn Srdjan Grahovac átti svo hættulega tilraun beint úr aukaspyrnu tveimur mínútum síðar en Ingvar kýldi fast skot hans frá.

Tveimur mínútum eftir það kom Danijel Dejan boltanum til hliðar á Aron Elís sem tók skotið hægra megin úr vítateignum, Manojlovic varði með fótunum, Gísli Gottskálk fylgdi á eftir og skoraði en var réttilega dæmdur rangstæður.

Á 82. mínútu fengu gestirnir besta færi sitt í leiknum. Þá barst boltinn til varamannsins David Cavic sem náði lúmsku skoti úr vítateignum, Ingvar varði glæsilega en hélt ekki boltanum og þá kom Gunnar Vatnhamar á vettvang og bjargaði á marklínu.

Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð og Víkingar fögnuðu að lokum sætum sigri.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Ísland 0:0 Slóvakía opna
Engir atburðir skráðir enn

Leiklýsing

Víkingur R. 2:0 Borac Banja Luka opna loka
90. mín. Ari Sigurpálsson (Víkingur R.) fær gult spjald +2 Kemur of seint í Herrera.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert