Arnar Gunnlaugsson tjáði sig um tapið fyrir Breiðabliki, 3:0, í lokaumferð og jafnframt úrslitaleik Bestu deildar karla í knattspyrnu á blaðamannafundi í dag.
Víkingar undirbúa sig nú fyrir leikinn gegn Borac Banja Luka frá Bosníu í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar á Kópavogsvelli á morgun.
Víkingar töpuðu fyrir Blikum þar síðustu helgi, sem gerði þá síðarnefndu að Íslandsmeisturum.
„Fyrstu tveir dagarnir var hálfgert sorgarferli hjá okkur. Það er búin að vera mikil sigurganga hjá okkur undanfarin ár og því ákveðið sjokk að tapa allt í einu, ný tilfinning.
Við létum leikmenn alveg vera og greindum Blikaleikinn ekki í viku. Vorum bara að æfa. Leikmenn fengu leyfi til að syrgja hver á sinn hátt.
Á mánudaginn tókum við leikinn fyrir loksins og hvað hefði mátt betur fara.
Síðan er stór Evrópuleikur fram undan. Þú ert að spila með stóru strákunum þannig þú hefur ekkert efni á að vorkenna þér lengi. Vonandi erum við nú komnir yfir þetta,“ sagði Arnar.