Vildi að mér gæti liðið svona alltaf

Arnar Gunnlaugsson ánægður eftir sigurinn í dag.
Arnar Gunnlaugsson ánægður eftir sigurinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, var hæstánægður með 2:0-sigur á Borac Banja Luka í 3. umferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu á Kópavogsvelli í dag.

„Tilfinningin er gríðarlega góð. Ég vildi að mér gæti liðið svona hverja einustu mínútu á hverjum einasta degi en það er víst ekki hægt. Það skiptast á skin og skúrir í þessari blessuðu íþrótt okkar.

Við ræddum það mikið í aðdraganda leiksins að nota kannski sársaukann frá því um þarsíðustu helgi til að byrgja innri reiði til þess að nýta þann kraft í þessum leik. Þú verður samt að nýta það rétt. Þú mátt ekki fara hauslaus á völlinn, hlaupa úr þér lungun og vera búinn á því eftir kortér.

Mér fannst við geta stjórnað okkar orkustigi og tilfinningum mjög vel. Okkur leið vel allan leikinn á móti liði sem er búið að ná frábærum úrslitum í Evrópukeppni.Þetta var virkilega góð frammistaða og stór sigur, ekki bara fyrir Víkinga heldur íslenska knattspyrnu,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Vona að þetta bíti okkur ekki í rassgatið

Víkingur var með töluverða yfirburði í leiknum og þá sér í lagi í fyrri hálfleik. Spurður hvort hann hefði viljað sjá Víking drepa leikinn fyrr sagði Arnar:

„2:0 er virkilega hættuleg staða en auðvitað viltu frekar vera 2:0 yfir heldur en 0:2 undir. Það er alltaf þetta dæmigerða þriðja mark. Mér fannst þeir svolítið vera að reyna með breytingum, þeir fóru í að nota tvo hreinræktaða framherja og við tókumst bara mjög vel á við það.

En þegar staðan var 2:0 var þetta alltaf leikur. Mér fannst við hafa getað klárað leikinn fyrr, ekkert ósvipað og á móti Belgunum þar sem við vorum svolítið að klúðra of mikið af möguleikum og færum líka.

Ég ætla að vona að það bíti okkur ekki í rassgatið þegar talið verður upp úr kassanum í desember af því að í svona deildarfyrirkomulagi gæti markatalan skipt verulegu máli.“

Víkingur er eftir sigurinn með sex stig í tíunda sæti deildarkeppninnar en liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um átta laus sæti í 16-liða úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert