Víkingur úr Reykjavík vann annan heimasigur sinn í röð í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu þegar Borac Banja Luka lá í valnum, 2:0, í þriðju umferð á Kópavogsvelli í gær.
Víkingur er í góðri stöðu með sex stig eftir þrjá leiki. Liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um átta laus sæti í 16-liða úrslitum en eina tapið til þessa kom í fyrstu umferð gegn Omonia Nikosía á Kýpur, 4:0.
Eftir góða frammistöðu lengst framan af í þeim leik skoraði Omonia þrjú mörk á síðustu níu mínútum leiksins. Frammistaða Víkings í deildarkeppninni hefur því á heildina litið verið afskaplega góð.
„Já það er rétt, það er vel gert að tala um það af því að fólk horfir svolítið á, og mögulega okkar stuðningsfólk og leikmenn líka, að 4:0 sé hræðilegt og að við þurfum að fara í allsherjar breytingar en þetta var ekkert stórslys á Kýpur á móti sterku liði.
Við greindum þann leik og létum ekki tilfinningar ráða. Við fórum svolítið og slípuðum okkur til og unnum með hausinn á strákunum, komum þeim í skilning að þeir ættu heima á þessu stigi.
Mér fannst það alltaf erfiðasta hindrunin. Það sást líka fyrsta kortérið á móti Belgunum. Menn voru svolítið: „Á ég heima hérna eða ekki? Er ekki bara best að vera í íslensku deildinni?“
En við erum með góða fótboltamenn og um leið og við náum einbeitingunni á hærra stig, sem við náðum í síðustu tveimur leikjum, þá geta þessir strákar gert mjög góða hluti,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir leikinn í gær.
Hvað reiknarðu með að Víkingur þurfi mörg stig til þess að tryggja sér sæti í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar?
„Eins og staðan er í dag virkar það eins og það þurfi sjö til átta stig. Átta væri mjög þægilegt og væri nokkuð öruggt en það eru búin að vera óvenju fá jafntefli hingað til.
Það gæti breyst núna á seinni stigum mótsins, sem myndi gera það að verkum að stigin sex sem var talað um fyrir mótið eru kannski ekki lengur nógu mörg. Það er mjög sterk og þægileg tilfinning að hafa þrjá leiki til þess að ná í þessi tvö stig til þess að mögulega gulltryggja okkur.
En fyrst við erum komnir þetta langt þá þarf mögulega að breyta einhverjum markmiðum og reyna að ná í fleiri stig. Þetta gefur okkur byr undir báða vængi til að hafa sjálfstraust til þess að fara aðeins lengra,“ sagði Arnar einnig.