Tímaeyðsla að fljúga mér til Íslands

Åge Hareide heimsækir Ísland ekki oftar en þarf.
Åge Hareide heimsækir Ísland ekki oftar en þarf. Eggert Jóhannesson

Åge Hareide, norski landsliðsþjálfari karla í fótbolta, heimsækir Ísland sjaldnar en erlendir forverar hans. Svíarnir Lars Lagerbäck og Erik Hamrén voru tíðari gestir á Íslandi.

Hareide hefur meiri áhuga á að ferðast um Evrópu að horfa á leikmenn Íslands en að heimsækja land og þjóð.

„Það sem ég ætti að vera að gera er að ferðast um Evrópu að fylgjast með leikmönnum. Ég hef gert eitthvað af því, en ekki eins mikið og ég hef viljað vegna fjárhagsástæðna.

Ég var alltaf úti um allt þegar ég stýrði danska liðinu og það er mikilvægara en að vera í sjálfu landinu. Ég get alltaf hringt í þjálfarateymið en það er ekki það sama með leikmenn,“ sagði Hareide.

Hann sagði tilgangslaust að koma til Íslands fyrir blaðamannafundi, sem hann tekur yfirleitt í gegnum fjarfundabúnað.

„Ef þú ætlar að eyða peningum í flug yfir höfuð er betra að ég hitti leikmenn og þá get ég fylgst með þeim og spjallað við þá. Það er mín vinna. Ég er á Íslandi þegar þess þarf.

Það er bæði peninga- og tímaeyðsla að fljúga mér til Íslands til að mæta á einn blaðamannafund. Ég fer á ráðstefnu á morgun og þess vegna kom ég til Íslands núna. Þegar þetta er fótboltatengt mæti ég,“ sagði sá norski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert