Hermann ráðinn þjálfari HK

Hermann Hreiðarsson eftir undirskriftina í Kórnum í dag.
Hermann Hreiðarsson eftir undirskriftina í Kórnum í dag. Ljósmynd/HK

Hermann Hreiðarsson var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs HK í knattspyrnu og skrifaði undir samning við Kópavogsfélagið til þriggja ára.

Hermann er fimmtugur, landsliðs- og atvinnumaður um langt árabil og hefur þjálfað lið ÍBV undanfarin þrjú ár. 

ÍBV vann 1. deildina í ár undir stjórn Hermanns og endurheimti sæti sitt í Bestu deildinni eftir eins árs fjarveru.

Þar kemur liðið einmitt í stað HK sem féll úr Bestu deildinni í haust eftir tveggja ára dvöl og Hermann fær því á ný það verkefni að koma liði aftur upp í hóp þeirra bestu.

Hermann tekur við af Ómari Inga Guðmundssyni sem þjálfaði HK frá vorinu 2022 en hætti störfum eftir tímabilið í haust og hefur verið ráðinn til KSÍ.

Hermann þjálfaði Eyjamenn fyrst árið 2013, þegar hann hóf þjálfaraferilinn. Síðan stýrði hann karlaliði Fylkis árin 2015 og 2016 og kvennaliði Fylkis árið 2017.

Á árinu 2018 var Hermann um skeið aðstoðarþjálfari Kerala Blasters á Indlandi og fór þaðan til Southend United á Englandi þar sem hann var aðstoðarþjálfari.

Hermann sneri aftur til Íslands og þjálfaði lið Þróttar í Vogum í 2. deildinni árin 2020 og 2021 en á seinna tímabilinu vann liðið 2. deildina og spilaði í fyrsta sinn í 1. deild árið eftir. Þá var Hermann hins vegar kominn á heimaslóðir í Vestmannaeyjum.

Hermann átti langan og glæsilegan feril sem leikmaður en hann er einn af fjórum Íslendingum sem hafa spilað meira en 500 deildaleiki á ferlinum. Af þeim lék hann 322 leiki í ensku úrvalsdeildinni, er leikjahæstur Íslendinga í þeirri deild og var um skeið sá leikjahæsti á Norðurlöndum. Hann varð enskur bikarmeistari með Portsmouth árið 2008.

Þá lék Hermann 89 landsleiki fyrir Íslands hönd og er sá áttundi leikjahæsti á þeim vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert