Blaðamaður mbl.is hreinsaður af ásökunum

Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnudeild ÍA hefur verið sektuð um 75.000 krónur af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vegna viðtals Jóns Þórs Haukssonar, þjálfara karlaliðs félagsins, við mbl.is eftir tap ÍA gegn Víkingi úr Reykjavík í 26. umferð Bestu deildarinnar.

Leiknum lauk með sigri Víkinga, 4:3, á Akranesi þann 19. október en Jón Þór var allt annað en sáttur með Elías Inga Árnason, dómara leiksins, eftir leikinn og lét hann heyra það í viðtali vð mbl.is.

Ámælisvert af blaðamanni

Jón Þór var kærður af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vegna viðtalsins en Skagamenn svöruðu kærunni fullum hálsi og sökuðu blaðamann mbl.is um smellubeitu.

„Hvað ummælin varðar sérstaklega þá er í texta mbl.is látið líta út fyrir að um beina tilvitnun í þjálfarann sé að ræða. Við hlustum á upptöku má ljóst vera að svo er ekki, sem er verulega ámælisvert af blaðamanni,“ segir í greinagerð Skagamanna.

„Í viðtalinu við þjálfarann kemur upp orðið „agenda“, en áður að því er komið er settur sterkur fyrirvari. Allt annað í viðtalinu lítur að slæmri frammistöðu dómarans. Ef önnur viðtöl við þjálfarann vegna sama leiks eru skoðuð má sjá að allt hans tal beinist að verulega slæmri frammistöðu dómarans án þess að nokkuð annað sé gefið til kynna,“ segir í greinagerðinni.

Ummerkin sjást í fyrirsögninni

„Að hafa þá skoðun að dómari hafi staðið sig illa er ekki ámælisvert. Sú grunur vaknar að umræddur blaðamaður mbl.is hafi leynt og ljóst verið að sækjast eftir því að Jón Þór Hauksson myndi tjá sig með óviðeigandi hætti um dómara leiksins.

Ummerki þess sjást vel í fyrirsögn fréttarinnar sem er einhvers konar „smellubeita“. Ekki verður á það fallist að í svörum Jóns Þórs við leiðandi spurningum blaðamanns felist að hann hafi dregið heilindi dómarans í vafa,“ segir ennfremur í greinagerð Skagamanna.

Í fullu samræmi við upptökuna

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ metur það sem svo að haft hafi verið eftir þjálfara ÍA á réttan hátt og því var félagið sektað um 75.000 krónur.

„Það er mat aga- og úrskurðarnefndar, eftir hlustun á upptöku af umræddu viðtali og að virtum öðrum fyrirliggjandi gögnum, að tilvitnuð ummæli Jón Þórs Haukssonar í frétt mbl.is séu í fullu samræmi við ummæli hans á upptöku og að ummælin hafi verið ósæmileg og hafi skaðað ímynd íslenskrar knattspyrnu,“ segir í úrskurði KSÍ sem má lesa í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert